Lögbannskrafa fyrir dóm á fimmtudag

Ferðamenn á Geysissvæðinu.
Ferðamenn á Geysissvæðinu. mbl.is/Rax

Málflutningur verður í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag vegna kröfu ríkisins um að lögbann verði lagt á gjaldtöku inn á Geysissvæðið. Lögmaður ríkisins segir ekki hafa verið skoðað að svo komnu máli hvort krafist verði skaðabóta í framhaldinu, verði lögbannskrafan samþykkt.

„Við höfum ekki hugsað málið svo langt í bili,“ segir Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins. Í síðustu viku voru lögð fram gögn af hálfu varnaraðila, þ.e. landeigendafélagsins. Ívar segist eiga von á því að niðurstaða í málinu liggi fyrir tiltölulega fljótt eftir að málflutningi lýkur. 

Lögbann aðeins bráðabirgðaaðgerð

Gjaldtaka hófst á Geysissvæðinu laugardaginn 15. mars, en tveimur dögum áður hafnaði sýslumaðurinn á Selfossi lögbannskröfu ríkisins vegna innheimtunnar. Ríkið skaut þá málinu til Héraðsdóms Suðurlands.

Rök ríkisins fyrir lögbanni eru þau að gjaldtakan sé ekki heimil án samþykkis allra landeigenda. Eignarhlutur á Geysissvæðinu skiptist í tvennt, annars vegar 23 þúsund fermetra séreignarland ríkisins í hjarta hverasvæðisins og hinsvegar landið umhverfis hverina sem er í sameign ríkisins og félags landeigenda.

Lögbann við gjaldheimtu yrði aldrei annað en bráðabirgðaaðgerð. Í henni felst enginn efnislegur dómur. Fallist héraðsdómur á lögbannskröfuna má búast við því að í kjölfarið verði höfðað mál því til staðfestingar.

Verði lögbannskröfunni hafnað er sömuleiðis viðbúið að höfðað verði mál vegna efnislegra réttinda á Geysissvæðinu, að sögn Ívars. „Það er þá eitthvað sem gerist í kjölfarið.“

Hér má sjá hvernig eignarhaldið skiptist á Geysissvæðinu.
Hér má sjá hvernig eignarhaldið skiptist á Geysissvæðinu. Kort/Fjármálaráðuneytið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert