„Þrátt fyrir klúður í meira en fjögur ár hefur nýrri ríkisstjórn nú tekist á innan við ári að setja saman tillögur sem tryggja munu leiðréttingu á því sem kallað er forsendubrestur, þ.e. á áhrifum hins ófyrirsjáanlega verðbólguskots sem var í kringum efnahagshrunið,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði áður gagnrýnt aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna og bent á að í lok fyrsta starfsárs hennar hefði ekkert frumvarp verið lagt fram um til dæmis afnám verðtryggingar.
„Hér er ekkert lyklafrumvarp. Hér eru 72 milljarðar í staðinn fyrir 300. Hér er 5% lækkun á verðtryggðum heimilanna en ekki 20%. Hér er ekki einu sinni staðið við 4% verðbólgumarkmiðið sem forsætisráðherra lofaði sjálfur í þessum stól síðasta sumar.
Hér er forsendubrestur heimilanna gerður að 1.100 þúsund króna framlagi til þess hluta íslenskra heimila sem skuldsett eru og það á fjórum árum. Hér er sannarlega ekkert heimsmet á ferðinni nema ef vera skyldi heimsmet í aprílgabbi,“ sagði Helgi.
Sigmundur svaraði því hins vegar til að nú þegar hefði náðst miklu meiri árangur en „við horfðum upp á í fjögur ár hjá gagnslausri ríkisstjórn“.
„En að háttvirtur þingmaður skuli enn eina ferðina reyna að halda því fram að menn standi ekki við loforð vegna þess að kostnaður ríksins sé ekki nógu mikill. Það tekur út yfir allan þjófabálk í ljósi þess að í fjögur ár reifst ég við háttvirtan þingmann og fleiri um einmitt þetta og reyndi að benda þeim á að kostnaðurinn væri einmitt miklu minni,“ sagði forsætisráðherra.