Sett verði 45% skuldaþak

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Ómar

Nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, gerir ráð fyrir því að sett verði 45% skuldaþak, þ.e. heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, verði lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.

Við núverandi aðstæður er umrætt skuldahlutfall hins opinbera um tveir þriðju af landsframleiðslu.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um heildstæða umgjörð um opinber fjármál. Lagt er meðal annars til að lögfest verði ítarlegri ákvæði en nú gilda um stefnumörkun í opinberum fjármálum. Gert er ráð fyrir að stefnumörkunin verði vandaðri, formfastari og til lengri tíma en tíðkast hefur.

„Slíkt fyrirkomulag er einkennandi fyrir þau ríki sem hafa náð hvað bestum árangri við stjórn opinberra fjármála,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Í greinagerðinni segir jafnframt að markmiðið um 45% skuldaþak þýði við núverandi aðstæður að stjórnvöld þurfi á næstu árum að greiða niður skuldir hins opinbera niður um 17 milljarða króna árlega að lágmarki. Þá er vaxtakostnaðurinn ótalinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert