Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta fyrstu umræðu um frumvörp sín í skuldamálum heimilanna fram á miðvikudag. Til stóð að mælt yrði fyrir frumvörpunum á morgun, 1. apríl.
Um eru að ræða tvö frumvörp sem kynnt voru í seinustu viku. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar.
Í samtali við mbl.is segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að dagskrá morgundagsins hafi verið kynnt á þingflokksformannafundi í morgun. Nú sé hins vegar ljóst að hún muni ekki standast.
„Það er, að því er virðist, vegna einhverrar viðkvæmni í tengslum við dagsetninguna, 1. apríl, eða að minnsta kosti höfum við engar haldbærar skýringar á því af hverju það er,“ segir Helgi.
Þetta kemur sér illa af því að við í stjórnarandstöðunni vildum leggja okkar af mörkum til þess að það væri hægt að klára fyrstu umræðu um þessi mikilvægu mál og koma þeim til nefndar,“ segir hann.
Það sé nefnilega ekki þingfundur á fimmtudag og föstudag.
„ Af því að frumvörpin eru að koma seint fram, þá væri hægt að koma þeim strax út til umsagnar og hefja þá vinnu. En með þessari frestun er vandséð að sjá að umræðan geti klárast á eftirmiðdegi miðvikudags.
Líklega verður þetta til þess að fyrstu umræðu lýkur ekki fyrr en í næstu viku,“ bætir hann við. Það komi stjórnarandstöðunni jafnframt spánskt fyrir sjónir að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að ræða sitt stærsta mál. „Við lýsum okkur reiðubúin til að gera það.“