Endurskoða lög um örnefni

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nauðsynlegt þykir að endurskoða gildandi lög um örnefni, sem eru frá árinu 1953, í ljósi breyttra búsetuhátta, mikillar fjölgunar lögbýla og annarra býla utan kaupstaða, kauptúna og þorpa.

Illugi Gunnarsson, mennta- menningarmálaráðherra, hefur mælt fyrir nýjum lögum um örnefni á Alþingi.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að nauðsynlegt sé að endurskoða gildandi lög. Mörg lögbýli hafi til dæmis lent innan sveitarfélaga með kaupstöðum, kauptúnum og þorpum við sameiningu sveitarfélaga. Þá hafi skrásetningarferli innan stjórnsýslunnar verið óskýrt, sem hafi leitt til þess að tiltekið misræmi hafi myndast á milli þinglýstra gagna og fasteignaskráningar.

Mælt er fyrir um að nafngiftahefðir séu í heiðri hafðar við myndun nýrra örnefna og að þau séu í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að skýra skuli og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna svo að nafngiftir endurspegli sem best raunveruleikann hverju sinni þannig að endanleg nafngift komist á sem fyrst í ferlinu.

Þá er ákvörðunarvaldið jafnframt flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti. Af nýmælum frumvarpsins má nefna:

    –     Mælt er fyrir um að samræma skuli opinbera skráningu örnefna og fasteigna í stjórnsýslunni.
    –     Sveitarfélögum er falin ábyrgð á nafngiftum staðfanga.
    –     Vegna öryggissjónarmiða eru skýrar reglur um skráningarferli og staðarvísun.
    –     Kveðið er á um nýjar almennar málsmeðferðarreglur örnefnanefndar.
    –     Málsmeðferð nafngifta nýrra náttúrufyrirbæra fest í lög.
    –     Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fær ráðgefandi hlutverk um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna, og nýjar nafngiftir.
    –     Örnefnagrunnur Landmælinga Íslands verði óháður mælikvarða. Hingað til hefur hann verið bundinn í lögum við mælikvarðann 1:50.000.
    –     Innihald örnefnagrunnsins verði aðgengilegt og endurnot hans án gjaldtöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka