Það hefur sennilega ekki farið framhjá landsmönnum að í dag er 1. apríl, dagurinn sem fólk keppist við að láta aðra „hlaupa apríl“. Siðurinn mun vera nokkurra alda gamall og má segja að sumar fréttir í fjölmiðlum þennan dag skeri sig úr að vissu leyti.
Oftar en ekki hefur óvæntur gestur boðað komu sína á tiltekinn stað, boðið er á upp á nýjan og spennandi viðburð og þá greina fréttirnar stundum frá sjaldséðum dýrum hér og þar um landið. Ekki var breyting á í dag og verður hér farið yfir nokkrar fréttir sem mbl.is telur líklegt að skrifaðar hafi verið með 1. apríl í huga.
Frétt Smartlands á mbl.is um nýjung Hreyfingar, nektar-jóga, vakti nokkra athygli. Þar stóð að kynin kæmu nakin saman í tíma og nytu þess að stunda jóga í hádeginu. Áhugasömum var boðið að vera með en einnig að líta inn og fylgjast með tímanum. Einnig birtist frétt á vef Hreyfingar um sama efni. Þess ber að geta að ekki stendur til að gestir stöðvarinnar megi vera naktir í jógatímum.
Þá greindu íþróttadeild mbl.is og Morgunblaðsins frá því að knattspyrnumaðurinn David Beckham hefði komið til landsins seint í gærkvöldi og ætlaði ganga frá samningi um opnun Hamborgarabúllu í Los Angeles í Bandaríkjunum. Ætlaði hann skv. fréttinni að halda blaðamannafund á Búllunni í hádeginu.
Í Fréttablaðinu var greint frá því að hópurinn Sirkus Íslands ætlaði að bjóða nýjan meðlim sirkussins velkominn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í dag, sirkusbjörninn Bamse. Átti björninn að koma úr sóttkví í dag og stóð því til að frítt yrði í garðinn.
Borgarbókasafnið greindi frá því að ákveðið hefði verið að skipta alfarið yfir í rafbækur í takt við breytta tíma. Því ætlaði safnið að gefa borgarbúum allar bækur safnsins kl. 15 í dag. Elko birti auglýsingu á vef sínum þar sem greint var frá nýjum tölvuleik, Herjólfur Simulator. Spilari leiksins þarf að sjá um siglingar skipsins og reka fyrirtækið sjálfur. „Spilari þarf þar að taka á erfiðum málum þar sem viðfangsefnin eru meðal annars ónýtar hafnir, verkföll, yfirvinnubönn, óánægðir farþegar, uppreisn skipverja og margt fleira. Hefur þú það sem þarf til að komast með farþega á þjóðhátíð?“ var spurt á vef Elko.
Á vef Skessuhorns var greint frá stökkbreyttum háhyrningi við Grundarfjarðarhöfn, en þar áttu hinir hefðbundnu litir á hvalnum að hafa víxlast, svart orðið hvítt og öfugt.
Á vef Ríkisútvarpsins mátti finna frétt þar sem auglýst var eftir nýjum stigakynni fyrir lokakvöld Eurovision í Kaupmannahöfn í maí. Hægt var að nálgast eyðublað þar sem fólk gat hlaðið upp myndbandi af sér þar sem það flutti setninguna: „Here are the points from the Icelandic televote. - Islande, douze points.“ Sérstök dómnefnd átti að velja úr hópi umsækjenda og átti að tilkynna úrslitin í fyrsta þætti Alla leið á laugardaginn.
Á vef knuz.is og visir.is kom fram að boðað hefði verið til leikfangabrennu í Hagkaupum í Kringlunni í dag. Þar átti að taka til í leikfangadeildinni, klæða vöðvastælta stríðsmenn í kjóla og fáklæddar prinsessur í hlý og notaleg föt. Það, sem ekki yrði breytt, yrði brennt á brennu á bílastæðinu.
Á vef Bæjarins besta kom fram að boðið yrði upp á ókeypis þyrluskíðun á skíðasvæðinu í Tungudal milli klukkan 16 og 19 í dag. Þokan á svæðinu átti ekki að koma að sök þar sem ekki þyrfti að fara nema 200 metra upp til að komast upp úr þokunni.
Hval átti að hafa rekið að landi í Höfðavík við Stórhöfða, ef marka má frétt á vef Eyjafrétta. Þar kom fram að um langreyði væri að ræða, um 20 metra langa, og var hún sögð á lífi. Þá var greint frá því á vef Vikudags að gullkvarts hefði fundist í Vaðlaheiðargöngum í nótt. Flytja átti efni úr göngunum á bílaplan Siglingaklúbbsins Nökkva við Drottningarbrautina á Akureyri. Áhugasamir voru hvattir til að mæta með skóflur og sigti til að leita að gulli í efninu.
Á vef Guardian hefur verið tekið saman ýmiskonar aprílgabb á erlendum vefsíðum. Mirror sagði frá því að hljómsveitin One Direction fengi ekki að koma til Norður-Kóreu ef meðlimir sveitarinnar væru ekki með sömu klippingu og Kim Jong-un.
Metro sagði að breska ríkisstjórnin ætlaði að banna sjálfsmyndir (e. selfies). The Nottingham Post sagði frá því að fornleifafræðingar hefðu fundið bein Hróa hattar.