Vilja bæta geðheilbrigði ungmenna

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Þorvaldur Örn

Nokkrir þingmenn úr fjórum flokkum hafa skorað á Alþingi að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra, að vinna aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að markmiðið sé að vinna að bættu geðheilbrigði barna og unglinga og þar með að bættu geðheilbrigði landsmanna til framtíðar. Taka þurfi tillit til þess að þjónusta vegna barna og unglinga þurfi að ná til átján ára aldurs. 

„Aðaláhersla verði á forvarnir, skimun grunnskólanemenda, þrepaskiptameðferð hópa og/eða einstaklinga, stuðning við fjölskyldur, samhæfða þjónustu í nærumhverfi og skýrari verkaskiptingu stofnana,“ að því er segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn vilja bregðast við þeirri staðreynd að of mörg börn kljást við alvarlega vanlíðan sem hefur ómæld áhrif á lífshlaup þeirra. „Geðrænn vandi fullorðinna hefst oft í barnæsku og þeim vanda hefði mögulega mátt afstýra með góðri og markvissri geðheilbrigðisþjónustu á þeim tíma,“ segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn vilja einnig bregðast við hugsanlegum áhrifum efnahagskreppu á líðan barna og fyrirbyggja áhrif sambærileg þeim sem urðu meðal annars í kjölfar kreppunnar í Finnlandi. Hún stóð í 36 mánuði en hafði varanleg áhrif á samfélagið með langvarandi afleiðingum. Finnskir fræðimenn hafa bent á að mikilvægast sé að hlúa að unga fólkinu sem er að komast á vinnumarkaðinn því það sé viðkvæmasti hópurinn, að því er fram kemur í greinargerðinni.

Þau Karl Garðarsson, Vigdís Hauksdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Haraldur Einarsson, Þórunn Egilsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Vilhjálmur Árnason og Valgerður Gunnarsdóttir eru flutningsmenn þingsályktunartillögunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert