Segir frumvörpin ekki taka á vandanum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um að heimila fólki að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir eða leggja fyrir til kaupa á húsnæði. Í kvöld mun hann svo mæla fyrir frumvarpi um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Frumvörpin voru lögð fram í síðustu viku og kynnt á blaðamannafundi af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra.

Viðbúið er því að frumvörpin verði rædd langt fram á kvöld.

Efni frumvarpsins um séreignarsparnaðinn má í grófum dráttum skipta í tvennt:

Annars vegar er lagt til úrræði sem heimilar fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði inn á veðlán sem tekin eru vegna íbúðahúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að þau séu grundvöllur til útreiknings vaxtarbóta. Hér undir falla einnig lánsveðslán ef þau uppfylla sömu skilyrði.

Hins vegar er lagt til úrræði sem heimilar ráðstöfun iðgjalda sem safnast hafa upp á tilteknu tímabili til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Engan áhuga á auka valkosti í húsnæðismálum

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði á þingi nú síðdegis að nú væri ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefði engan áhuga á því að auka valkosti í húsnæðismálum.

Hann sagði jafnframt að frumvörpin tækju ekki á þeim vanda sem við væri að glíma. Láglaunafólk ætti erfitt með að ná endum saman og sagði hann að frumvörpin myndu ekki sporna gegn því. Misskipting í samfélaginu myndi því óhjákvæmilega aukast.

Árni benti á að þeir sem hefðu tök á því að leggja mikið fyrir fengju ríflegan stuðning frá ríkinu, en þeir sem ættu erfitt með að leggja fyrir fengju hins vegar lítinn ríkisstuðning.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tók í sama streng og spurði ráðherrann hvað honum fyndist um þá gagnrýni að aðgerðirnar gögnuðust betur þeim sem hafa hærri tekjur en þeim sem hafa lægri tekjur.

Sagði hún að þeir sem höfðu lægri tekjur spöruðu lægri fjárhæðir en aðrir og að um „hlutfallslegan sparnað“ væri að ræða.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert