Lögreglan í Horsens í Danmörku hefur fengið gæsluvarðhald yfir Hjördísi Svan Aðalheiðardóttur, forsjárlausri móður þriggja barna, framlengt til 24. apríl. Hjördís hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 10. febrúar. Þetta staðfestir lögreglan í Horsens við mbl.is.
Áður en Hjördís var úrskurðuð í gæsluvarðhald var hún sett í fjögurra vikna langt farbann í landinu á meðan mál hennar, er varðar för hennar með börn sín til Íslands síðasta sumar, er til meðferðar fyrir dómstólum.
Hjördís er ákærð fyrir brot á 215. grein danskra hegningarlaga. Greinin snýr að því þegar einstaklingur, í þessu tilviki Hjördís, tekur barn af réttmætum foreldrum sínum eða forsjáraðila. Verður hún einnig ákærð fyrir brot á annarri milligrein 215. greinar, en hún snýr að því þegar manneskja tekur barn undir 18 ára aldri ólöglega með sér til annars lands. Hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er fjögur ár.
Hjördís var úrskurðuð í gæsluvarðhald þar sem lögregla í Danmörku óttast að hún muni fara aftur til Íslands, þrátt fyrir farbann.
Hjördís hefur átt í forræðisdeilu við danskan barnsföður sinn og fyrrverandi eiginmann í nokkur ár, en þau eiga saman þrjár dætur. Föðurnum var dæmt fullt forræði yfir þeim árið 2012, en áður höfðu þær verið teknar af Hjördísi með lögregluvaldi og fluttar til Danmerkur.
Hún var með dætrunum í Danmörku síðasta sumar, en ákvað að skila þeim ekki til föður þeirra á tilsettum tíma, fór huldu höfði um tíma og flaug síðan með börnin hingað til lands í einkaflugvél.