Sex undirmenn í áhöfn Herjólfs hringdu sig inn veika í morgun, degi eftir að ríkisstjórnin samþykkti lög á verkfallsaðgerðir þeirra. Eimskip brást við með því að kalla til aukamenn og sigldi skipið frá Vestmannaeyjum eftir smátafir.
„Það er eitthvert heilsuleysi að hrjá mannskapinn,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sem sinnir kjaraviðræðunum fyrir hönd undirmanna á Herjólfi.
Í hópnum eru 12 starfsmenn sem ganga vaktir og áttu sex þeirra að mæta til vinnu í morgun þegar Herjólfur sigldi frá Eyjum, en allir tilkynntu veikindi. Tafir urðu á brottför skipsins en Eimskip brást við með því að fá starfsmenn í landi til að ganga í störfin.
„Það liggur fyrir að skipið er ólöglega mannað. Það er mannað einhverjum bílstjórum og ég dreg það í efa að þeir hafi tilskilin réttindi sem þarf til þess að vera í áhöfn á farþegaskipi,“ segir Jónas. Ekki hefur náðst í Eimskip til að fá frekari upplýsingar um málið.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um að fresta verkfalli undirmanna á Herjólfi til 15. september varð að lögum á Alþingi eftir miðnætti. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu um fimmleytið í gær og fékk það því nokkuð hraða afgreiðslu.
„Þetta fer mjög illa í alla, að útgerðin sé leyst frá þeirri ábyrgð að semja við starfsfólk sitt. Það er óþolandi,“ segir Jónas. Aðspurður segist hann ekki vita hvort veikindin sem hrjá áhöfnina séu það alvarleg að búast megi við langvarandi fjarvistum frá vinnu.
Innanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að lögin gegn verkfallsaðgerðunum væru neyðarúrræði vegna almannahagsmuna og benti á að fordæmi væru fyrir slíkri lagasetningu vegna samgangna til Vestmannaeyja.
Jónas segir það engu skipta þótt fordæmi séu og bendir á að árið 1993, þegar lög voru sett á verkfall Herjólfs, hafi staðan verið allt önnur. „Þá var ekki yfirvinnubann eins og núna, þá sigldi skipið ekki neitt heldur var bara alveg stopp. Það er ekki sambærilegt.“