„Það er grafalvarlegt mál að fá svona bráðaofnæmi,“ ritar Erlingur Hauksson sjávarlíffræðingur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag en þar segir hann frá fyrsta tilviki bráðaofnæmis gegn hringormum sem greinst hefur hér á landi.
Í greininni segir Erlingur frá einstaklingi sem gekkst undir húðpróf og blóðpróf hjá lækni. Eini ofnæmisvaldurinn sem kom fram var hringormur er nefnist Anisakis. Viðkomandi var að sögn Erlings mjög langt leiddur er hann leitaði til læknis. Hér eftir má hann ekki smakka fisk af neinu tagi og ekki meðhöndla fisk í matreiðslu fyrir sína fjölskyldu, þar sem það gæti komið af stað öðru kasti. Hefur þessi einstaklingur sótt mikið í hráan fisk frá barnsaldri. „Hringormar í hráum, vanelduðum og léttmarineruðum sjávarafurðum geta sýkt fólk, sérstaklega Anisakis, eins og dæmið sannar,“ skrifar Erlingur og brýnir fyrir fólki að tryggja að allur fiskur, notaður t.d. í sushi, sé frystur áður svo að allir hringormar drepist.
Í samtali við Morgunblaðið segir Erlingur að bráðaofnæmi gegn hringormum sé þekkt vandamál erlendis. Á árum áður hafi mikið borið á þessu í Japan en í seinni tíð hafi ofnæmið orðið algengara í Evrópu, enda neysla á hráfæði eins og sushi-réttum stóraukist. Erlingur segir þetta hafa verið mest rannsakað á Spáni og hefur hann verið í samstarfi við þarlenda vísindamenn.
Anisakis er önnur tveggja tegunda hringorma í fiski á Íslandsmiðum og finnst einkum í þunnildum og líffærum í kviðarholi. Hin er mun algengari og nefnist Pseudoterravona. Erlingur segir brýnt að endurtaka rannsóknir á hringormafjölda í þorski, sem síðast voru gerðar fyrir 15 árum. „Fyrir því liggja ekki einungis líffræðileg rök, heldur er einnig um matvælaöryggi að ræða,“ segir hann.