„Hvar er reiknivélin?“

Helgi Hjörvar, alþingismaður.
Helgi Hjörvar, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hæstvirtur forsætisráðherra, hvar er reiknivélin? Þegar maður pantar sér pítsu þá veit maður hvort maður fær senda 18 tommu, 9 tommu eða bara brauðstangir. Maður hefur líka upplýsingar um verðið,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, í fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Hins vegar gæti almenningur ekki fengið upplýsingar um það hvað áform ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaleiðréttingar þýddu fyrir hann.

Vísaði Helgi þar til þeirra ummæla Sigmundar að auðveldara yrði að sækja um skuldaleiðréttingu en panta sér pítsu. Helgi rifjaði einnig upp að rætt hefði verið um þegar áform ríkisstjórnarinnar voru kynnt í nóvember síðastliðnum að komið yrði upp sérstakri reiknivél á netinu þar sem fólk gæti reiknað út hversu mikið það fengi leiðrétt. Þá sagði hann að þau áform sem kynnt hafi verið í nóvember væru allt önnur en þau sem kynnt hefðu verið í síðustu viku.

„Hér er verið að kynna tillögur sem fela í sér gríðarlega stórt úrræði til þess að koma til móts við heimili landsins. Viðbrögð háttvirts þingmanns og undirbúningur fyrir umræðuna hefur eingöngu snúist um það að reyna að ala sem mest á tortryggni og reyna að finna sem flesta hópa sem hann getur mögulega á einhvern hátt gert óörugga eða óánægða. Þetta er ekki gott að hafa að leiðarljósi í pólitísku starfi,“ sagði Sigmundur.

Hann bætti því við að það sem kynnt hafi verið í nóvember væri það sama og síðan hafi verið útfært. Frumvörpin sem lögð hafi verið fram í þeim efnum væru einungis tæknileg útfærsla á þeim tillögum. „Flóknara er það ekki.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka