Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði í gær minnisblað til ráðherra Bandaríkjastjórnar og hlutaðeigandi stofnana, þar sem hann útlistar aðgerðir sem embættismönnum og stofnunum er ætlað að grípa til vegna hvalveiða Íslendinga. Hann leggur ekki til að viðskiptaþvingunum verði beitt.
Í minnisblaðinu segist forsetinn deila áhyggjum umhverfisráðherrans Sally Jewell af viðskiptum Íslendinga með hvalaafurðir og beinir því til embættismanna að þeir komi athugasemdum á framfæri við íslensk stjórnvöld og hvetji þau til að þróa önnur tækifæri sem tengjast hvölum, s.s. hvalaskoðun og rannsóknarstarf í þágu hvalaverndar.
Obama beinir þeim tilmælum til utanríkisráðuneytisins að það endurskoði samstarfsverkefni Bandaríkjanna og Íslands og skilyrði, þar sem það þyki eiga við, samvinnu þjóðanna því að íslensk stjórnvöld hlíti fyrirmælum Alþjóðahvalveiðiráðsins um hvalveiðar í atvinnuskyni. Þá hvetur hann háttsetta embættismenn til að meta hvort heimsóknir hingað til lands séu viðeigandi í ljósi veiða Íslendinga á langreyði og verslunar þeirra með langreyðarafurðir.