„Ég er að hugsa um að nota þetta tækifæri til að biðjast afsökunar á því að hafa ekki talað miklu hærra gegn þessu rugli fyrir kosningarnar í vor,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, á umræðum á Alþingi í kvöld. Átti hann þar við kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna, sem hann sagði vera glórulaus.
„Mér finnst ég sekur um það þó ég hefði skíttapað á því. Vegna þess að þetta var glórulaust og er það að hluta til enn þá. Og ég finn til ábyrgðar að hafa ekki staðið mig betur í þessum efnum,“ bætti hann við.
„Eina heimsmetið sem hér kemur við sögu er heimsmet í óábyrgum kosningaloforðum,“ sagði Steingrímur jafnframt.
Enn er rætt um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um að heimila fólki að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir eða leggja fyrir til kaupa á húsnæði.
Umræðan hófst síðdegis í dag og eru enn margir á mælendaskrá.