„Afleiðingar verkfalls hryllingur einn“

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Hjörtur

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér ályktun vegna hugsanlegs verkfalls háskólakennara. 

„Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar að Félag Háskólakennara sé knúið til þess að fara í verkfall. Síðustu ár hefur SHÍ talað fyrir því hve nauðsynlegt það er að setja menntun í forgang og að stanslaus niðurskurður gangi ekki til lengdar. Nú virðist Háskóli Íslands vera kominn að sársaukamörkum. Verkfallsaðgerðir eru birtingarmynd þess að í tæplega sjö ár hefur verið skorið niður til Háskóla Íslands um 20% á meðan nemendum skólans hefur fjölgað um 20%.

Stjórnvöld verða að átta sig á því að bæði landið sjálft og menntasamfélagið er í samkeppni við allan heiminn um mannauð. Ef menntað fólk fær ekki greidd samkeppnishæf laun þá fer það einfaldlega annað.

Afleiðingar verkfalls fyrir stúdenta er hryllingur einn. Frestun próftímabilsins setur allt úr skorðum fyrir stúdenta sem reiða sig á námslán sem greidd eru út eftir prófalok. Fyrirframgreiðsla bankanna er stuðningsnet stúdenta. Sömuleiðis hafa margir gert fjárhagslega skuldbindandi ráðstafanir sem miða við að próftímabili ljúki 10. maí.

SHÍ skorar á fjármálaráðherra og þingheim að útvega fé svo ná megi fram ásættanlegum og réttlátum samningum við kennara, fyrir háskólakennara, stúdenta og samfélagið allt. Annars er hætt á að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum þegar kemur að menntun á æðra stigi. 

SHÍ skorar á ríkisstjórn Íslands að setja menntun í forgang og leysa kjaradeiluna umsvifalaust með farsælum hætti áður en boða þarf formlega til verkfalls þann 9. apríl. Stjórnvöld hafa fáeina daga til að semja við Félag Háskólakennara til að afstýra verkfalli; verkfalli sem mun eyðileggja prófatímabil stúdenta, útborgun námslána, sumarvinnur og kostnaðarsamar ferðaáætlanir,“ segir í ályktun SHÍ. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka