Vitað er um að minnsta kosti níu tilvik hér á landi á undanförnum árum þar sem fólk hefur sýkst af hringormum eftir neyslu á hráum eða vanelduðum fiski. Þau gætu þó verið talsvert fleiri, þar sem ormarnir ganga oftast niður af fólki án þess að þeirra verði vart.
Í gær birtist aðsend grein í Morgunblaðinu þar sem sagt er frá því að bráðaofnæmi gegn hringormum hafi nýlega greinst hér á landi í fyrsta skipti. Ormana er að finna í mörgum tegundum af matfiski og geta borist í fólk við neyslu á hráum fiski, sem hefur aukist undanfarin ár. Sjaldgæft er að við matseld rétta sem innihalda hráan fisk sé notaður fiskur, sem getur borið í sér hringorma.
Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, skrifaði grein í Læknablaðið fyrir nokkrum árum um hringorma sem fundist höfðu í koki tveggja einstaklinga hér á landi. Fólkið hafði neytt illa hitaðra rétta úr ferskum steinbít nokkru fyrr og við rannsókn kom í ljós að 3. stigs lirfur, sem voru upprunnar í holdi fisksins, höfðu þroskast upp á 4. stig í fólkinu. Í öðru tilvikinu vaknaði maður við að ormur var að hreyfa sig í munni hans. Í hinu fann kona fyrir ertingu í hálsi og þegar hún hóstaði barst lifandi ormur upp í kok. Báðir voru ormarnir um 3,4 cm á lengd.
Karl segir að síðan þá hafi fimm ormar til viðbótar, sem fundist hafi í fólki, borist til rannsókna að Keldum, en þeim til viðbótar hafi borist tilkynningar um fleiri tilfelli. Í flestum tilvikum var um að ræða hringorma af tegundinni Pseudoterranova decipiens, stundum kallaður selormur, og er fólkið talið hafa fengið ormana eftir að hafa borðað vaneldaðan fisk; t.d. steinbít, skarkola eða þorsklifur.
„Í einu tilvikinu fann viðkomandi orm í munni sér með tannbursta að morgni dags, segir Karl og segir að fólk verði ekki alltaf vart við ormana, oft gangi þeir niður af fólki og valdi engum skaða. Stundum verði fólk líka ormanna vart, en ákveði að bíða þá af sér. „Yfirleitt hef ég fengið þessa orma þegar þeir hafa skriðið upp í kok á fólki. Selormurinn veldur minni skaða en hin tegundin, Anisakis simplex, oft nefndur hvalormur, vegna þess að lokahýslar í lífsferli hans eru tannhvalir. Hvalormurinn er miklu gjarnari á að bora sig út úr meltingarveginum og ferðast þá í gegnum líffæri og getur þar valdið blæðingum og sársauka. Það getur verið hættulegt.“
Karl nefnir dæmi um tilvik, sem reyndar sé óstaðfest því að ormurinn hafi ekki fengist til rannsóknar, þar sem hvalormur fannst í kviðarholi loðnusjómanns sem hafði stundað það að borða hrá loðnuhrogn úti á sjó. „Annað tilvik um hvalorm er þegar barn veiddi út úr sér dauðan, soðinn hvalorm sem verið hafði í fiski sem því hafði verið gefinn.“
Spurður hvaða fisktegundir geti borið í sér þessar tvær tegundir orma segir Karl þær vera margar. Selormurinn er meira eða minna í öllum fiski á grunnsævi en hvalormurinn er algengastur í uppsjávarfiski, eins og loðnu og síld. Til að drepa ormana þurfi þeir að hitna í meira en 70°C eða frysta fiskinn í ákveðinn tíma. „Ég held að sushiframleiðendur viti vel af þessu og velji almennt fisktegundir sem bera þetta ekki með sér. En ef þeir gera það, þá gæta þeir þess væntanlega vel að það séu engir ormar í fiskinum.“
Karl segir að dauður selormur valdi engum skaða, en hvalormur gæti vakið ofnæmi hjá fólki hvort sem hann er lifandi eða dauður. Ofurnæmir einstaklingar geti fengið bráðaofnæmi af því að leggja sér slíka orma til munns.
Hvað er það sem gerist þegar fólk innbyrðir lifandi hringorm?
„Lífsferill hringorma gengur í gegnum fimm stig og þegar þeir koma úr fiski í fólk eru þeir á 3. stigi lífsferilsins, sem er smithæfa stigið. Fullorðnu, kynþroska ormarnir eru á 5. stigi. Ef við borðum þessar lirfur með fiski, þá átta ormarnir sig fljótt á því að þeir eru hvorki í maga hvals né sels og reyna yfirleitt að fara beinustu leið út,“ segir Karl.
„En í sumum tilfellum ná þeir að festa sig í maganum og stoppa þar og ná að þroskast þar í ákveðinn tíma, oft til að skipta einu sinni um ham og þroskast upp á 4. stig. Lengra nær þroskunin þó ekki. Fyrr en síðar, oft innan viku eða svo, sleppa selormar takinu og berast út úr líkamanum, oftast út í gegn um meltingarveginn en stundum krafla þeir sig upp vélindað upp í kok. Það er oftast þá sem við fáum þá til skoðunar og greiningar. En hvalormurinn er mun hættulegri því hann er gjarnari á að fara á flakk í kviðarholi.“
Til eru fjórar tegundir sníkjuþráðorma sem lifa í maga villtra sjávarspendýra við Íslandsstrendur. Auk Anisakis simplex og Pseudoterranova decipiens sem þegar hafa verið nefndar og kallaðar hval- og selormar eru þær Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae.
Þetta eru allt algengar tegundir, en af tveimur þeirra síðastnefndu stafar mönnum sjaldnast hætta vegna þess að þær taka sér bólstað í líffærum í líkamsholi fisksins en leita ekki út í fiskholdið eins og hinar tvær gera.
Hvalormur nær svo til eingöngu að verða kynþroska í tannhvölum en ókynþroska lirfur sjást einnig oft í selum. Hinar ormategundirnar þrjár lifa aftur á móti fullorðnar í maga sela.
Hvalormar eru algengir í uppsjávarfiskum, eins og t.d. loðnu, síld eða makríl, en selormar í botnfiskum. Ránfiskur, eins og þorskurinn, sem lifir bæði á botn- og uppsjávarfiskum, safnar í sig öllum tegundum hringorma því lirfur úr bráðinni bora sig út úr maga þorsksins og enda sumar úti í fiskholdinu. Ýsa er oftast laus við hringormasmit vegna þess að hún lifir fyrst og fremst á skeldýrum sem ekki bera með sér hringorma.
Óskar segir að heilbrigðiseftirlitinu hafi aldrei borist tilkynning um að einhver hafi fengið hringorma eða önnur sníkjudýr í sushi hér á landi. „Eftirlitið í þessum fyrirtækjum og hráefnið er almennt það gott.“
Að sögn Önnu gilda svipaðar reglur um meðferð matvæla á sushiveitingastöðum og öðrum veitingastöðum. „Við förum auðvitað eftir sömu reglum varðandi hreinlæti, kælingu og hversu lengi fiskurinn má standa á borði.“
Á matseðli veitingastaðarins Rub23 á Akureyri er sushiréttur sem inniheldur hráan þorsk. Einar Geirsson, eigandi staðarins, segir að fiskurinn sé gegnumlýstur og grandskoðaður áður en hann er borinn á borð. Spurður hvort gestir staðarins geri athugasemdir við að hrár þorskur sé borinn þar fram segir Einar svo ekki vera. „Margir vilja gjarnan smakka hráan þorsk, enda er hann afar góður.“