Íslenskt neftóbak inniheldur talsvert meira magn nikótíns heldur en vinsæl sænsk munntóbakstegund. Stærstur hluti neyslu íslensks neftóbaks endar í vör íslenskra karlmanna á aldrinum 18-24 ára. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR er hlutfall nikótíns í íslensku neftóbaki 2,8% en til samanburðar inniheldur hið sænska General snus munntóbak 1,67% nikótín.
Framleitt vegna hefðar
Viðar Jensson, deildarstjóri tóbaksvarna hjá Landlæknisembættinu, segir það gömul sannindi að meira nikótínmagn sé í íslenska neftóbakinu en í þessari tegund sænsks munntóbaks sem einna helst hefur sést hér á landi eftir að hafa verið smyglað inn í landið. Bendir hann á að grunnurinn í íslenska neftóbakinu sé sendur til landsins frá sænska tóbaksframleiðandanum Swedish match.
,,Íslenska ríkið fékk undanþágu fyrir íslenska neftóbakið frá banni í tilskipun ESB á dreifingu á munntóbaki. Þetta er sama tilskipun og bannar útflutning Svía á tóbakinu þeirra. Við fáum undanþáguna vegna þess að það fellur undir hefð hér á landi," segir Viðar.
Hann segir að heildarneysla á íslensku neftóbaki í vör hafi vaxið gríðarlega. „Framleiðsla á neftóbaki jókst úr 16 tonnum á ári árið 2007 í 32 tonn árið 2012. Þá gerðum við könnum og spurðum út í neyslu á tóbaki í vör til að gera okkur betur grein fyrir heildarneyslunni," segir Viðar.
20% ungra karlmanna nota neftóbakið í vör
Hann segir að könnunin hafi sýnt að 70-80% íslenska neftóbaksins tóbaksins endi í munni ungra karlmanna þ.e. þeirra sem eru á aldrinum 18-24 ára. Þá hafi könnunin sýnt að 15% noti íslenska neftóbakið í vör daglega en 5% geri það af og til. Því sé 20% karlmanna í þessum aldurshópi sem noti tóbakið.
Til samanburðar notar 3% íslenskra karla tóbakið daglega þegar horft er til allra aldurshópa. Dagleg notkun karla á tóbaki í nef er hæst í aldurshópnum 35–44 ára eða 7% en 4% þess aldurshóps notar tóbak í vör daglega. Einungis 1% 45 ára og eldri nota tóbaki vör.