Fékk skyndihjálp 21 mínútu eftir útkall

Artic heli skiing notast við tvær þyrlur sem henta vel …
Artic heli skiing notast við tvær þyrlur sem henta vel til flugs í fjalllendi.

Einungis tók 21 mínútur að veita vélsleðamanni, sem ók fram af hengju í gili fremst í Böggvisstaðadal fyrir ofan Dalvík síðdegis í gær, skyndihjálp. Þá var hann kominn á sjúkrahús eftir 73 mínútur. Ástæðan er sú að lögreglan fékk aðstoð fyrirtækis sem sérhæfir sig í þyrluskíðaferðum á svæðinu. 

Jökull Bergmann, eigandi Artic Heli skiing, segir að hægt hafi verið að bregðast svo skjótt við sökum þess að notast var við kröftuga litla þyrlu sem henti til flugs í fjalllendi. Í sumum tilvikum henti slík þyrla betur til björgunarstarfa en þyrlur Landhelgisgæslunnar. „Stóru þyrlurnar hjá Landhelgisgæslunni komast stundum ekki að. Björgunarmenn í þeim þurfa að nota spilið til að síga björgunarmanni niður að sjúklingnum og það er oft erfitt í fjallendi. Í slíkum aðstæðum er oft hægt að lenda á þessum litlu þyrlum sem við notum," segir Jökull.

Hafa áður tekið þátt í björgunaraðgerðum

Starfsmenn fyrirtækisins eru sérþjálfaðir skyndihjálpar- og fjallabjörgunarmenn með áratuga reynslu. Hafa þeir tekið þátt í nokkrum björgunarstörfum, m.a. þegar einn leiðsögumaður fyrirtækisins lenti í snjóflóði í fyrra.

Í björgunarleiðangrinum í gær var notast við þyrlu frá Norðurflugi sem nefnist á Ecurail A 350 en flugmaðurinn var Jón Kjartan Björnsson. „Við höfum tekið þátt í 3-4 minniháttar björgunaraðgerðum. Þá hafa það gjarnan verið erlendir leiðsögumenn sem lent hafa í vandræðum. Við höfum þá flogið hinum slasaða niður á veg, t.d. ef einhver hefur snúið hné svo dæmi sé nefnt," segir Jökull.

Senda þyrlu um leið og útkall kemur 

Tvær þyrlur frá fyrirtækinu eru á Tröllaskaga þar sem fyrirtækið starfar. „Þegar bón kemur frá lögreglu og málið snýst um líf eða dauða þá bregðumst við eins skjótt við og mögulegt er. Við komum kúnnum yfirleitt á öruggan stað, t.d. skíða þeir niður í dalbotn á öruggan stað, en sendum eina þyrlu af stað um leið og útkallið kemur," segir Jökull.

Tímalína

Eins og sjá má á meðfylgjandi tímalínu tók einungis 73 mínútur að koma vélsleðamanninum á sjúkrahús en hægt var að veita honum skyndihjálp 21 mínútu eftir að neyðarkall barst. Maðurinn er úr lífshættu. 

17:07 Berst stjórnstöð Arctic Heli Skiing beiðni um aðstoð frá Lögreglu
17:17 Þyrla Arctic Heli Skiing farin í loftið með tvo sérþjálfaða björgunar leiðsögumenn
17:28 Leiðsögumenn lentir hjá hinum slasaða og hefja skyndihjálp
17:34 Þyrla hefur að flytja Lækni og sjúkraflutninga menn á slysstað
18:20 Þyrlan lendir með hinn slasaða á þyrlupalli FSA ásamt lækni frá Dalvík og leiðsögumanni AHS sem vaktaði sjúkling í flutningi
18:28 Þyrla lendir á Akureyrarflugvelli, tekur eldsneyti og er klár til frekari aðgerða
18:59 Þyrla flytur lækni og björgunarbúnað til baka til Dalvíkur
19:27 Þyrla lendir við bækistöð Arctic Heli Skiing að Klængshóli í Skíðadal og aðgerðum lokið.

Sameiginlegt björgunarkerfi

Fyrirtækið hefur tekið þátt í að byggja upp fjarskiptakerfi á Tröllaskaga í samstarfi  Slysavarnarfélagði Landsbjörgu. „Það er sameiginleg samskiptaráð Artic Hele skiing og Landsbjargar. Þeir geta náð í okkur öllum stundum þegar við erum að vinna hér á Tröllaskaga," segir Jökull.

Fjallaleiðsögumaður hjá Artic Heli skiing,
Fjallaleiðsögumaður hjá Artic Heli skiing,
Jökull Bergmann.
Jökull Bergmann. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka