Skíðakonan komin um borð í þyrlu

Erlend fjallaskíðakona sem slasaðist í Ólafsfjarðarmúla fyrr í dag er komin um borð í þyrlu ferðaþjónustufyrirtækis sem flytur hana á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Fjórar björgunarsveitir voru kallaðar út og tvær þyrlur ferðaþjónustuaðila tóku þátt í aðgerðum dagsins, auk lögreglu og bráðatækna, að því er segir í tilkynningu frá slysavarnafélaginu Landsbjörg.  

Konan var að skíða niður Múlann við erfiðar aðstæður þegar hún féll. Hún var þá stödd ofan við gamla Ólafsfjarðarveg, um 300 metra frá gangnamunnanum Ólafsfjarðarmegin. Er talið að hún sé töluvert illa slösuð en þó ekki í lífshættu.

Fyrstu björgunarmenn voru komnir á staðinn um hálftíma eftir að útkallið barst. Þyrla annars ferðaþjónustuaðila í nágrenninu sótti björgunarsveitamann og bráðatækni á Dalvík og flutti á slysstað. Ekki þótti ráðlegt að senda marga björgunarmenn á slysstaðinn þar sem hann var metinn hættulegur vegna mögulegs grjóthruns, segir í tilkynningunni.

Frétt mbl.is: Sækja mikið slasaða skíðakonu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert