Gangi áætlanir eftir mun skuldabyrði sveitarfélaganna léttast verulega á næstu árum og samanlagðar langtíma- og skammtímaskuldir minnka um rúma 180 milljarða að raungildi frá því sem mest var eftir hrunið.
Þetta kemur fram í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsáætlun sveitarfélaga og í útreikningum sem sambandið gerði að beiðni Morgunblaðsins. Langtímaskuldir urðu mestar á núvirði 529 milljarðar árið 2010 en skammtímaskuldirnar urðu mestar 92 milljarðar króna árið 2012 á núvirði.
Í fréttaskýringu um skuldabyrðina í Morgunblaðinu í dag telur Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, að skuldasöfnunin eftir hrunið hafi slegið met. Hann hefur þar síðustu áratugi til samanburðar. Erlend lán Orkuveitunnar hafi vegið þungt í skuldasöfnuninni, enda gengisfall hækkað slík lán í krónum. Samanlagðar langtíma- og skammtímaskuldir sveitarfélaganna ríflega tvöfölduðust á árunum 2005-2010, fóru á núvirði úr 293 milljörðum í 616 milljarða. Er áætlað að þær verði 436 milljarðar árið 2017.