Sá gimsteininn í sorpinu

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Valgeiri Bjarnasyni, og syninum, …
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Valgeiri Bjarnasyni, og syninum, Sigurði Reyni. mbl.is

„Þó við séum einhverf viljum við ekki vera ein. Flest okkar, sem erum einhverf, langar til að eignast lífsförunaut og fjölskyldu en það er ekki alltaf auðvelt,“ segir Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, doktorsnemi í þýðingafræði, sem verður meðal fyrirlesara á málþingi um einhverfu í Borgarleikhúsinu á morgun, laugardag. Erindið kallar hún „Að vera á einhverfurófi og eignast fjölskyldu“.

Ingibjörg Elsa greindist ekki með einhverfu fyrr en hún var orðin 44 ára gömul. Þá var hún búin að vera með einhverfu alla ævi án þess að gera sér grein fyrir því. „Ég vissi alltaf að ég væri dálítið sérstök og öðruvísi en aðrir án þess að geta fest hendur á hvað það væri. Ég var fyrst send til sálfræðings þegar ég var nítján ára. Þegar ég greindist svo með Asperger-einhverfu varð ég afskaplega fegin. Þá gat ég horft yfir líf mitt og skilið það. Síðasta púslið var komið og líf mitt myndaði loksins rökrétta mynd,“ segir hún.

Ingibjörg Elsa var orðin 38 ára þegar hún kynntist manninum sínum en fólk var mikið búið að velta fyrir sér hvers vegna hún væri alltaf ein. „Hvað er þetta eiginlega með hana Ingibjörgu, af hverju fær hún sér ekki kærasta?“ Hún kveðst hafa þroskast mikið í sambandinu, ekki síst eftir að sonur þeirra fæddist. „Maður nær eiginlega ekki fullum þroska fyrr en maður stofnar fjölskyldu,“ segir hún.

Það er samt meira en að segja það. Margt fólk kynnist úti á lífinu en Ingibjörg Elsa segir það ekki auðvelt fyrir einhverfa sem þoli margir hverjir illa hávaða og blikkandi ljós.

Spurð hvernig hún hafi kynnst sínum manni hlær hún. „Það er saga að segja frá því. Ég var að vinna á verkfræðistofu og var send norður á Hofsós til að halda fyrirlestur um nýja möguleika í sorpurðun í Skagafirði. Þar sem ég stóð í pontu og ræddi fjálglega um sorp og jarðlög heillaðist maður, sem sat aftarlega í salnum, gjörsamlega af mér. Hann sá gimsteininn í sorpinu.“
Hún skellir upp úr.

Þetta var Valgeir Bjarnason, þáverandi aðstoðarskólameistari á Hólum í Hjaltadal. Ekki hafði hann kjark til að kynna sig fyrir Ingibjörgu Elsu á staðnum en setti sig skömmu síðar í samband við hana gegnum tölvupóst. „Við fórum að spjalla saman og það endaði með því að við ákváðum að hittast í Reykjavík. Hann keyrði suður í fjóra tíma gegnum snjó og ófærð. Þegar ég sá hann í fyrsta skipti ákvað ég strax að gefa honum tækifæri. Hann var með svo heiðarlegan svip. Þetta var maður sem ég ætlaði að treysta.“

Síðan eru liðin tíu ár og Ingibjörg Elsa segir þau alltaf jafn hamingjusöm í sveitinni á Selfossi. Ekki spilltist heldur gleðin þegar lítill hnokki, Sigurður Reynir Valgeirsson, kom í heiminn fyrir hálfu fimmta ári.

Málþingið hefst klukkan 17 og er í tilefni af Alþjóðlegum degi einhverfu, 2. apríl, og í tengslum við sýningu á leikritinu Furðulegt háttalag hunds um nótt.

Nánar er rætt við Ingibjörgu Elsu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert