Hann féll fjórtán metra fram af háhýsi, hún tólf og hálfan. Þau mölbrotnuðu bæði en sluppu að öðru leyti merkilega vel.
Bræðrabörnin Anna Sigrún Gunnarsdóttir og Ævar Sveinn Sveinsson búa að ótrúlega líkri lífsreynslu. Hún slasaðist aðeins fimm ára gömul fyrir níu árum, þegar hún féll fram af svölum á heimili sínu, og náði fullum bata. Nú styður hún frænda sinn í endurhæfingunni á Grensásdeildinni en tveir mánuðir eru síðan Ævar, sem er smiður, féll þegar hann var að störfum.
Anna Sigrún man ekkert eftir slysinu og lítið eftir endurhæfingunni. „Slysið er meira staðreynd en minning,“ segir hún í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Ævar er á batavegi og vonast til að verða farinn að smíða og keppa í motokrossi fyrr en síðar.