Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, segir að dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra sé mikil vonbrigði og komi honum nokkuð á óvart, bæði dómsorðið og röksemdafærsla dómarans.
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í gær Stapa lífeyrissjóð til að greiða Glitni hf. 3,6 milljarða króna skuld samkvæmt átján afleiðusamningum, sem Glitnir hélt fram að hefðu verið ógreiddir.
Í yfirlýsingu framkvæmdastjórans á heimasíðu Stapa segir hann það vera áhyggjuefni hversu ólíkir dómar séu að falla í málum sem varða afleiðusamninga þar sem hafðar séu uppi mjög svipaðar málsástæður.
„Þannig féll nýlega dómur í Héraðsdómi Norðurlands vestra þar sem telft var fram svipuðum málsástæðum, en niðurstaðan var á þveröfugan veg miðað við þennan dóm.
Það sorglega við dómsniðurstöðuna er að dómarinn virðist ekki skilja eðli þessara viðskipta og ruglar meðal annars saman stundarviðskiptum með gjaldmiðla og framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum, sem er sitt hvað, svo dæmi sé tekið,“ segir Kári jafnframt.
Hann segir jafnframt að dómurinn sé byggður nær alfarið á markaðsskilmálum Glitnis, sem dómarinn virðist ekki hafa fyllilega skilið.
„Einnig skiljum við ekki sumar dómatilvísanirnar og teljum að þær eigi ekki við um það ágreiningsefni sem þarna er uppi. Það er alltaf áhætta fólgin í að fara með mál af þessu tagi fyrir dómstóla þar sem þau eru flókin og reyna á sérþekkingu.
Dómarinn í þessu máli virðist þannig alls ekki skilja hvers eðils viðskipti af þessu tagi eru,“ segir hann.
Hann segir það vera ljóst að málinu verði áfrýjað.
„Hæstiréttur hefur margoft snúið við héraðsdómum, svo ekki er ástæða til að örvænta, ekki síst vegna þess hve dómurinn er illa rökstuddur og byggir að minnsta kosti að hluta á misskilningi. Þetta er í það minnsta mat okkar lögmanna,“ segir Kári.
Hann bendir jafnframt á að jafnvel þótt Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdómsins sé ekki víst að það muni hafa nein teljandi áhrif á afkomu Stapa.
„Stapi lífeyrissjóður á um sex milljarða kröfur á Glitni sem hafa verið færðar niður. Þær munu væntanlega nýtast til skuldajöfnunar á móti þessum kröfum. Um það er þó ekki hægt að fullyrða fyrr en hæstaréttardómur er genginn og á skuldajöfnun verður látið reyna,“ segir hann að lokum.