Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, vildi ekki eiga samræður við Garðar Eiríksson, talsmann Landeigendafélags Geysis ehf, þegar hann lagði leið sína á Geysissvæðið í dag.
„Hann kom hingað ásamt nokkrum samborgurum sem vildu tjá þá skoðun sína að þeir væru á móti því sem við værum að gera. Og við buðum þau velkomin. Ég tók í höndina á Ögmundi, bauð honum inn og reyndi síðan að eiga samræður við hann,“ segir Garðar í samtali við mbl.is.
„En hann virtist nú ekki vera maður samræðna þannig að hann kaus að tjá sig við þann fjölmiðil sem var hérna og ekki meira. Hann vildi ekki ræða við mig um landsins gagn og nauðsynjar.“
Garðar segir að nokkrir Vestmannaeyingar hafi greitt aðgangsgjaldið fyrir Ögmund. Hann hafi ekki einu sinni viljað þiggja boðsmiða sem Garðar bauð honum.
„Það er ekki flóknara en það. Við höfum hann hér til minnis um þetta,“ segir Garðar.
Hann segist hins vegar hafa rætt við gott fólk í hópnum sem fylgdi Ögmundi. „Og við skiptumst á skoðunum, eðlilega. Við erum nú allir sammála um að það þurfi að vernda náttúruna. Við erum bara ekki sammála um það með hvaða hætti eigi að afla fjár. Það er málið í hnotskurn,“ segir Garðar.
Þetta er í annað sinn sem Ögmundur ákveður að fara á svæðið til að mótmæla gjaldtökunni.