Agi í ríkisfjármálum nauðsynlegur

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Krónan er ekkert annað en mælir á ástandið í efnahagslífinu almennt, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði hún að krónan væri ekki að fara á næstunni og því væri mikilvægt að kostir hennar yrðu nýttir.

Í þættinum var rætt um ræðu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna í gær. Bjarni þakkaði meðal annars íslensku krónunni fyrir það að atvinnuleysi hér væri mun minna en í öllum 28 ríkjum Evrópusambandsins.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að það væri greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn væri að skerpa stefnu sína í Evrópumálum. Hann rifjaði upp að á landsfundi flokksins hefði verið samþykkt tillaga þess efnis að krónan væri ekki framtíðargjaldmiðill Íslendinga. 

„Núna er tónninn sá að þjóðin eigi ekki að fara í Evrópusambandið og að krónan sé fín. Það hefði verið betra ef flokkurinn hefði sagt þetta í kosningabaráttunni,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði að veruleikinn sem blasti við með krónuna væri sá að hún félli oftar en ekki í verði. Þá lækkuðu laun Íslendinga, verðlag hækkaði og höfuðstóll erlendra lána hækkaði jafnframt. Krónan væri einnig í höftum og því væri bannað að skipta krónum yfir í aðra gjaldmiðla. „Þetta er veruleikinn sem krónan býður upp á.“

Hanna Birna benti á mikilvægi þess að böndum yrði komið á ríkisfjármálin. Gjaldmiðillinn væri ekki aðalmálið, heldur þyrfti að koma á aga í fjármálum ríkisins. Hún sagði að nýtt frumvarp fjármálaráðherra um opinber fjármál yrði til þess að innleiða sterkari aga í þessum efnum.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að sett verði 45% skuldaþak, þ.e. að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, verði lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert