Heilbrigðisráðherra segir úrbóta þörf

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir það alveg skýrt að við getum ekki eytt fimm til tíu árum til viðbótar í að rífast um staðsetningu nýs Landspítala. Við séum nú komin á þann stað í samkeppni um sérhæft vinnuafl í heilbrigðisvísindum að aðstaðan verði að batna.

„Ég er þeirrar skoðunar eindregið að það verði ekki lengur dregið að gera úrbætur á húsnæðismálum Landspítalans,“ sagði ráðherrann í Sunnudagsmorgni á RÚV í morgun.

Hann segir að ekki enn hafi verið tekin ákvörðun um hvaða stefna verði mörkuð í þessum efnum. Hann hafi hins vegar fengið heimild upp á hundrað milljónir króna á fjárlögum þessa árs til að halda verkinu áfram og þá hafi hann jafnframt rætt við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um fjármögnun verkefnisins.

Forgangsmálið sé hins vegar að stöðva skuldasöfnun ríkisins með því að skila hallalausum fjárlögum.

Kristján segist vera sannfærður um það að stefnan verði mörkuð í húsnæðismálum spítalans á kjörtímabilinu. Óvíst sé hins vegar hvort framkvæmdir hefjist á næstu þremur árum. Það verði tíminn að leiða í ljós. „Stóra málið er að fjármagna verkefnið,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert