Tæplega tvítugur ökumaður var stöðvaður af lögreglu í hringtorgi við Ánanaust rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Ökumaðurinn hafði gert að leik sínum að aka bifreið sinni hratt og ógætilega í hringi á hringtorginu.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að ökumaðurinn megi búast við því að fá sekt fyrir að aka ekki á þeirri akrein sem ökutækinu er ætlað, fyrir ógætilegan akstur á vegamótum, að sýna ekki aðgát á vegamótum og þá vantaði einnig annað skráningarnúmer bifreiðarinnar.
Þá var rúmlega tvítugur ökumaður stöðvaður á Þingvallavegi í gærkvöldi, en hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna. Einnig fundust kannabisefni í bílnum. Bifreið mannsins var ótryggð og var hún því tekin úr umferð.