Lögleysa í umferðarmerkingum

Algengt er að merkingar á gang- og hjólreiðastígum eigi sér enga stoð í lögum. Á stíg við Suðurströnd á Seltjarnarnesi eru merkingar sem margir gætu túlkað sem biðskyldu á gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk þar sem svipaðar merkingar gera það á umferðargötum en í lögum er skýrt að  vegfarendur eigi forgang.

Ökumenn sem ætla að aka yfir gangstétt út á akbraut eiga að bíða á meðan vegfarendur fara framhjá og Hið sama á við um hjólafólk. Þetta er skýrt í 25 og 26 grein umferðarlaga en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eiga þríhyrningar af þessu tagi, sem sjá má víða á göngu- og hjólreiðastígum á höfuðborgarsvæðinu, sér enga stoð í lögum og eru því í raun marklausir.

Slíkt vekur upp spurningar um bótaskyldu komi til óhappa á stöðum sem eru merktir með þeim þessum hætti. Lögreglan hefur nú gert athugasemdir við merkingarnar sem hér um ræðir samkvæmt heimildum mbl.is.

Úr 25. grein umferðarlaga:

„Nú ætlar ökumaður að aka inn á veg af bifreiðastæði, lóð eða landareign, bensínstöð eða svipuðu svæði eða af götuslóða, stíg, göngugötu, vistgötu, heimreið eða svipuðum vegi eða yfir gangstétt eða af vegöxl og skal hann þá veita umferð í veg fyrir leið hans forgang.“

Úr 26. grein umferðarlaga:

„Ökumaður sem ætlar að aka yfir gangstétt eða göngustíg eða að aka út á akbraut frá lóð eða svæði við veginn skal bíða meðan gangandi vegfarandi fer fram hjá. Sama á við um akstur inn á eða yfir göngugötu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert