Auðvelda upplýsta ákvörðun

Frá fundinum.
Frá fundinum. mbl.is/Þórður

„Ég tel að þessar skýrslur sem núna eru komnar fram auðveldi það að við náum almennilegri upplýstri niðurstöðu um það hvað okkur finnst um þetta. Þannig að auðvitað er þetta allt saman lóð á vogarskálarnar og bætist við.“

Þetta sagði Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, á Grand Hótel í morgun þar sem skýrsla stofnunarinnar um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið var kynnt en skýrslan var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands.

Þeirri spurningu var beint til Piu hvort að komin væri nokkuð góð mynd af því hvað innganga í Evrópusambandið þýddi með skýrslu Alþjóðamálastofnunar auk skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir utanríkisráðuneytið sem kynnt var í lok febrúar. Hún bætti því við að stjórnvöld hefðu nefnt að þau ætluðu að fara í úttekt á EES-samningnum. „Ég fagna því og bendi þeim á við erum til þjónustu reiðubúin.“

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur sem fjallaði um efnahags- og peningamál í skýrslu Alþjóðamálastofnunar, sagðist í svari við sömu spurningu telja að umræðan um málið hefði verið nokkuð á villigötum. Leggja ætti áherslu á þá málaflokka sem út af stæðu miðað við að vera aðili að EES-samningnum annars vegar og ganga í Evrópusambandið hins vegar.

Bjarni Már Magnússon, lektor við Háskólann í Reykjavík sem skrifar um sjávarútvegsmál í skýrslunni, sagði að það sem upp á vantaði væri helst nánari skoðun á ýmsum tæknilegum atriðum eins og hvernig umræður um sjávarútvegsmál færu fram innan Evrópusambandsins og hvernig staðan yrði ef engar undanþágur eða sérlausnir yrðu á boðstólum.

Daði Már Kristóferson, auðlindahagfræðingur sem fjallar um landbúnaðarmál í skýrslunni, lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi vangaveltur um hvað hugsanlega stæði í samningi um inngöngu Íslands í Evrópusambandið væru komnar nógu langt. „Það sem þurfum að gera bara er að klára ferlið og sjá hvað síðan stendur í honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert