Frétti af samþykkt sinni við skýrslutöku

Sérstakur saksóknari og aðstoðarmenn hans.
Sérstakur saksóknari og aðstoðarmenn hans. Þórður Arnar Þórðarson

Fjármálastjóri Glitnis var síma- og netsambandslaus á norðanverðum Vestfjörðum þegar sex milljarða króna lánveiting Glitnis til FS38 var samþykkt. Engu að síður var nafn hans við samþykktina, sem samkvæmt gögnum var gerð á milli funda áhættunefndar bankans. Hann frétti fyrst af því við skýrslutöku.

Þetta kom fram á þriðja degi aðalmeðferðar í Aurum-málinu svonefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fjármálastjórinn, Rósant Már Torfason, sagði Aurum-málið hafa verið til meðferðar í bankanum í um tvo mánuði á árinu 2008 og tekið breytingum á þeim tíma. „Ég var aldrei sérstaklega hrifinn af þessu máli og vildi sjá aðrar útfærslur. Það var ágreiningur um það hvernig ætti að afgreiða málið og ég vildi að það færi fyrir stjórn bankans. Síðan fór ég í frí þarna 7. júlí og var utan tölvusambands í viku. Þegar ég kom aftur 14. júlí var búið að samþykkja málið.“

Spurður að því hverjir samþykktu málið svaraði Rósant: „Samkvæmt fundagerðinni [áhættunefndar bankans] er sagt að ég og Magnús [Arnar Arngrímsson] og Lárus [Welding] höfum samþykkt málið milli funda. En það getur ekki verið og ég kannast ekki við að hafa samþykkt málið milli funda. Málið var ekki samþykkt 8. júlí og það var sent áhættunefnd til umfjöllunar að morgni þess dags. Ég sé ekki betur en að það hefði átt að fara til umfjöllunar þar. Ég get ekki hafa komið að þeirri ákvörðun þar sem ég var á norðanverðum Vestfjörðum þar sem þar var ekki tölvu- eða símasamband á þessum tíma. en mér skilst að málið hafi ekki veirð tekið fyrir á fundinum þannig að þeir [Magnús og Lárus] hljóta að hafa samþykkt þetta.“

Hann sagði að mun síðar, á árinu 2009 eða 2010, hafi slitastjórn Glitnis verið að rannsaka málið og boðað hann í skýrslutöku. Þá hafi hann blaðað í gegnum samþykktir áhættunefndar á þessu tímabili og rekist á þessa samþykkt.

Verjandi Magnús spurði vegna þessa hvort hann hafi við skýrslutökuna viðurkennt að hafa staðið að samþykktinni. Rósant sagðist hafa séð þessa samþykkt skömmu fyrir yfirheyrsluna þannig að hann hafi svarað því játandi við hana. Í kjölfarið á yfirheyrslunni hafi hann skoðað gögnin betur og áttað sig á því að það gæti ekki staðist. Hann hafi því afturkallað þann framburð sinn.

Jafnframt spurði hann Rósant hvort fundargerð áhættunefndar frá 9. júlí 2008 hafi ekki verið send honum í tölvupósti. Rósant sagði hana hafa borist í tölvupósti 13. júlí. Hann hafi ekki komið úr fríinu fyrr en daginn eftir. Á þessum tíma hafi honum borist um hundrað tölvubréf á hverjum degi og það hafi ekki verið í forgangi að skoða fundargerð fundar sem hann var ekki staddur á.

Vildi að stjórnin tæki málið fyrir

Verjandi Lárusar spurði Rósant hvers vegna það hafi verið að hann var mótfallinn lánveitingunni. Kom í ljós að það var ekki vegna þess að hann teldi að brotið væri gegn reglum Glitnis um stór og áhættusöm lán, ekki vegna þess að lánveitingin rúmaðist ekki innan heimilda áhættunefndar og ekki vegna þess að hann teldi að með lánveitingunni væri verið að brjóta gegn lögum.

Rósant sagði það hins vegar svo að hann vildi að stjórn bankans tæki málið fyrir og veitti samþykki fyrir sitt leyti. Bankinn hafi verið að íhuga kaup á hlutum í House of Fraser og Iceland sem hvoru tveggja voru bresk félög í eigu BG Capital. Aurum-málið hafi ekki verið ósvipað þeim málum þar sem þarna var verið að taka ákveðna hlutafjáráhættu og allt tengdist þetta Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Stjórn Glitnis átti að fjalla um kaupin í House of Fraser og Iceland og því hafi verið eðlilegt að hún fjallaði einnig um Aurum-málið.

Þetta viðhorf sitt hafi hann viðrað í samtölum við Lárus Welding og taldi hann sig hafa fengið vilyrði fyrir því að Aurum-málið færi fyrir stjórn bankans. Meðdómari spurði meðal annars hvort áhættunefnd bankans hafi ekki meiri sérfræðiþekkingu á útlánamálum en stjórn bankans. „Jú, en það er þannig að stundum vill maður að stjórnin samþykki ákveðna hluti, ákveðin mál sem eiga betur heima þar.“

Hann skýrði þetta betur síðar: „Ég vildi ekki að málið yrði klárað með þessum hætti sem gert var, en forstjóri bankans var mjög áfram um að það yrði klárað. Þá hefur hann þá lausn að leggja mál fyrir stjórnina og fá stuðning hennar. Mér fannst það rétta leiðin.“

Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert