Ísland allt skilgreint sem harðbýlt

Skýrsla Alþjóðastofnunar HÍ var kynnt á blaðamannafundi á Grand Hóteli …
Skýrsla Alþjóðastofnunar HÍ var kynnt á blaðamannafundi á Grand Hóteli í dag. mbl.is/Þórður

Mögulegt ætti að vera að skilgreina Ísland allt sem harðbýlt svæði ef landið gengi í Evrópusambandið sem þýddi að íslenskur landbúnaður ætti rétt á svokölluðum harðbýlisgreiðslum, líkt og samið var um þegar Svíar og Finnar gengu í sambandið, sem þá yrðu greiddar af íslenska ríkinu.

Þetta kom fram í máli Daða Más Kristóferssonar, auðlindahagfræðings, á Grand Hóteli í dag þar sem skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusamabndið var kynnt en hún var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands.

Daði benti á að þetta fyrirkomulag væri skilgreint sem tímabundið en væri hins vegar enn við líði enda ekki tímabundið ástand að hluti Finnlands til að mynda væri harðbýll. Það fyrirkomulag breyttist ekki nema reglum Evrópusambandsins yrði breytt.

Spurður á fundinum að því hvort slíkir styrkir gætu að breyttum reglum fallið alfarið brott samkvæmt ákvörðun sambandsins sagði hann það rétt. Í því fælist vissulega ákveðin pólitísk áhætta ef Ísland gengi í Evrópusambandið.

Möguleikar á að koma til móts við Ísland í byggðamálum ættu að vera umtalsverðir vegna breyttra áhersla innan Evrópusambandsins. Hins vegar yrði staðan mjög erfið fyrir íslenskan landbúnað án einhvers konar sérlausna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert