Viðræður um sjávarútvegsmál í viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið komust aldrei af stað vegna makríldeilunnar. Deilan varð að stórpólitísku deilumáli á vettvangi sambandsins og kom í veg fyrir að hægt var að leggja fram rýniskýrslu þess um sjávarútvegsmál. Þetta kom fram í erindi Bjarna Más Magnússonar, lektors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á Grand Hótel í morgun þar sem kynnt var skýrsla Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið.
Bjarni sagði ríki eins og Frakkland og Írland hafa krafist þess að makríldeilan og viðræðurnar yrðu tengdar saman með opnunarskilyrðum vegna opnunar sjávarútvegskafla viðræðnanna tengdum henni. Þessu hafi önnur ríki innan Evrópusambandsins lagst gegn. Stækkunardeild framkvæmdastjórnar sambandsins hafi einnig lagst gegn slíkri tengingu. Íslensk stjórnvöld hafi ekki getað sætt sig við opnunarskilyrði tengdum makríldeilunni.
Bjarni sagði ennfremur að í samtölum vð embættismenn Evrópusambandsins hefði komið fram að þeir teldu sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins búa yfir töluverðum sveigjanleika og meiri en oft hefur verið talið. Þeir teldu því að möguleiki ætti að vera á lausnum í þeim efnum sem bæði Ísland og Evrópusambandið gætu sætt sig við. Bjarni sagði það hins vegar ekki koma endanlega í ljós fyrr en samningur lægi fyrir.
Reglan sérstaklega hugsuð fyrir Ísland
Bjarni sagði varanlegar undanþágur og sérlausnir hafa fengist í sjávarútvegsmálum í tengslum við inngöngu nýrra ríkja. Vísaði hann í skýrslu Alþjóðamálastofnunar í þeim efnum. Hann sagði ljóst að hægt væri að breyta þeirri reglugerð sem sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins hvíldi á í ráðherraráðinu án aðkomu Íslands þó landið væri aðili að því en það væri hins vegar ólíklegt í ljósi pólitísks veruleika innan þess.
Þá lagði Bjarni áherslu á að þó ekki næðust fram varanlegar undanþágur eða sérlausnir hefði Ísland engu að síður leiðir til þess að draga úr líkunum á að erlend fiskiskip gætu veitt á miðunum við Ísland. Vísaði hann þar meðal annar til reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika, heimilda fyrir ríki til þess að fara fram á ákveðin efnahagsleg tengsl ríkja við viðkomandi land og nýlegrar reglu sem heimili ríkjum innan Evrópusambandsins til þess að ákveða kvóta í stofnum sem þau ættu ein hagsmuna að gæta gagnvart.
Sagðist Bjarni hafa heimildir fyrir því að síðastnefnda reglan hefði verið sérstaklega hugsuð með Ísland í huga til þess að auðvelda íslenskum samningamönnum að semja um sjávarútvegsmálin. Hins vegar hefðu embættismenn Evrópusambandsins tekið fram að mjög ólíklegt væri að Ísland héldi forræði yfir samningum um deilistofnum við önnur ríki. Það myndi kollvarpa því kerfi sem gilti innan sambandsins. Bjarni sagði hins vegar ekkert hægt að fullyrða um það nema samningar lægju fyrir.