Útgerð Norrænu P/F Smyril Line hefur óskað eftir viðræðum um hafnaraðstöðu fyrir ferjuna í Fjarðabyggð. Forsvarsmenn Fjarðabyggðar taka fram að þeir hafi á engum tímapunkti nálgast stjórn útgerðarinnar um flutning Norrænu frá Seyðisfirði. Tekið er fram að enn sé óljóst hver verði endanleg niðurstaða viðræðnanna.
Þetta kemur fram á heimasíðu Fjarðabyggðar.
Ellefu íbúar á Seyðisfirði hafa sent ráðherrum ríkisstjórnarinnar og þingmönnum opið bréf þar sem flutningi á Norrænu frá Seyðisfirði til Eskifjarðar er mótmælt. Þá eru stjórnvöld hvött til inngrips.
„Samningaviðræður eru nú í gangi á milli Fjarðabyggðahafna og Smyril Line um að flytja viðkomuhöfn ferjunnar Norrænu frá Seyðisfirði til Eskifjarðar sem kemur til með að hafa gríðarlega neikvæð áhrif á alla starfsemi fyrirtækja hér á staðnum og á rekstur sveitarfélagsins í heild sinni,“ segir í bréfinu.
Á vef Fjarðabyggðar segir, að beiðni Smyril Line hafi borist Fjarðabyggðarhöfnum þann 30. október sl. og var bæjarfulltrúum á Seyðisfirði þegar tilkynnt um efni hennar, svo að þeir gætu brugðist strax við og leitað mögulegra lausna. Þá segir, að einnig hafi bæjarfulltrúum á Seyðisfirði verið gerð grein fyrir, að erindið fengi sömu formlegu afgreiðslu og önnur sem berist sveitarfélaginu frá atvinnu- og viðskiptalífi.
„Að íhuguðu máli mat hafnarstjórn Fjarðabyggðar það svo, að henni væri skylt að verða við beiðni P/F Smyril Line um viðræður og brýnt væri að fá fyrirætlanir útgerðarinnar upp á borðið, svo taka mætti upplýsta og málefnalega afstöðu til málsins,“ segir í tilkynningu Fjarðabyggðar.
Þar segir ennfremur, að sú ákvörðun útgerðarinnar að horfa annað með starfsemi sína setji sameiginlegar samþykktir á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í ákveðið uppnám sem Fjarðabyggð líkt og önnur sveitarfélög hafi ekki getað séð fyrir.
„Viðræður við P/F Smyril Line hafa leitt í ljós, að útgerðin óskar fyrst og fremst eftir aðstöðu á Eskifirði. Um þá afstöðu fjallaði hafnarstjórn og bæjarráð Fjarðabyggðar á sameiginlegum fundi 25. mars sl. Ákveðið var að halda áfram viðræðum á þeim grunni og var fulltrúum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar gert grein fyrir því í samræmi við góða starfshætti og gegnsæja.
Ekki er enn ljóst hver endanleg niðurstaða viðræðnanna verður,“ segir á vef Fjarðabyggðar.