„Ég er mjög ánægður með þessa skýrslu. Hún segir það skýrt að á þeim 18 mánuðum sem samningaviðræðurnar stóðu yfir hafði náðst verulegur árangur og það er lofsorði lokið á faglegan undirbúning viðræðna,“ segir Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra, um skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við ESB.
Össur telur helstu niðurstöðu skýrslunnar í fyrsta lagi vera þá að með upptöku evru yrði „gríðarlegur velferðarábati“. Í öðru lagi þá sé aðild að ESB tryggasta leiðin til afnáms gjaldeyrishafta og þriðja lagi komi fram að góð fordæmi séu fyrir klæðskerasniðnum sérlausnum til að taka á sérþjóðlegum vandamálum eins og í sjávarútvegi og landbúnaði.
„Mér finnst þess vegna í ljósi skýrslunnar,og einnig þeirrar, sem kom frá Hagfræðistofnun, að það sé í reynd búið að grafsetja öll helstu rök andstæðinga aðildar um að halda ekki aðildarviðræðunum áfram. Skýrslan undirstrikar að ef þeim yrði formlega slitið þá fælist í því tap á öllu því fé og atgervi sem er búið að setja í viðræðurnar. Þá þyrfti að taka þær upp formlega aftur með samþykki allra aðildarþjóða og fara aftur í alla þessa vinnu,“ segir Össur og telur engin önnur rök uppi núna en að halda viðræðunum við ESB áfram. Ríkisstjórnin hafi að auki lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna og hún þurfi núna að standa við það loforð.
„Ríkisstjórnin hefur sagt að hún telji ekki gerlegt að ætla ríkisstjórn, sem er á móti aðild, að stýra samningum, ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði með þeim hætti. Á móti segi ég að ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að framfylgja niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hún lofaði sjálf þá á hún bara einn kost, hann er sá að segja af sér.“
Fram kemur í skýrslu Alþjóðamálastofnunar að samstöðuleysi fyrri ríkisstjórnar hafi verið meðal þeirra þátta sem töfðu aðildarviðræður Íslands við ESB. Um þetta segir Össur:
„Það er rétt að það var ágreiningur sem tafði einstaka kafla en það að einn ráðherra hafi verið á móti aðild er ekkert sérstakt fyrir Ísland. Það gerðist líka í Svíþjóð á sínum tíma. Aðalatriðið er að þrátt fyrir ýmsar tafir sem kunna að hafa komið upp á þá gengu samningarnir hratt og vel fyrir sig, miðað við ýmsar aðrar þjóðir.“