Óttast ekki fordæmisgildið

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segist ekki hafa áhyggjur af því að umfangsmikil skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar skapi annað hvort lagalega bindandi fordæmi eða fordæmi fyrir önnur stjórnvöld síðari tíma.

„Aðstæður núna eru mjög sérstakar. Ég á ekki von á því að hér verði aftur látið líðast að peningamagn í umferð fimmfaldist á fimm árum og ég á heldur ekki ekki von á því að hér í framtíðinni verði jafnvíðtæk verðtrygging og hér hefur verið til þessa,“ sagði Frosti í umræðum á Alþingi í dag.

Rætt var um frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir frumvarpinu nú síðdegis.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, benti á að skuldavandi íslenskra heimila væri bein afleiðing gengishruns íslensku krónunnar.

„En hvað olli hruni krónunnar?“ spurði Frosti. „Það er spurningin sem ég held að við ættum að skoða þannig að við getum komið í veg fyrir að það gerist aftur. Það var gegndarlaus aukning peningamagns í umferð í aðdraganda hrunsins.“

Hann sagði að á fimm árum fyrir hrunið hefði peningamagn í umferð aukist að meðaltali um tuttugu prósent á ári. „Það leiðir bara til eins. Því miður var ekki haft eftirlit með þessari peningaprentun. Það olli hruni krónunnar,“ nefndir Frosti.

Hann sagði jafnframt að ef það tækist að koma í veg fyrir að peningamagn ykist svo mikið í umferð og að hér yrði ekki eins víðtæk verðtrygging, þá væri óþarfi að ráðast á nýjan leik í svona stóra og víðtæka aðgerð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert