Höfðu samband gegnum Kaupþing í Dúbaí

Í janúar 2008 hafði deildarstjóri Kaupþings í Dúbaí samband við framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings á Íslandi. Eigendur skartgripafyrirtækisins Damus vildu ná sambandi við eigendur úra- og skartgripafyrirtækisins Aurum. Á þessum tíma voru stærstu hluthafar í Aurum félögin Baugur og Fons.

Þórólfur Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka, kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag og gaf skýrslu við aðalmeðferð í Aurum-málinu svonefnda. Þriðja degi aðalmeðferðar lauk skömmu fyrir klukkan sex í kvöld en heldur áfram í fyrramálið. Verður þá meðal annars tekist á um það sérstaklega hvort Jón Ásgeir Jóhannesson hafi verið skuggastjórnandi Glitnis.

Í skýrslu Þórólfs kom fram það sem verjendur vilja meina að sé upphaf hins raunverulega Aurum-máls. Ekki þess máls sem frá greinir í ákæru sérstaks saksóknara.

Eins og komið hefur fram eru þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við sex milljarða króna lánveitingu til eignarhaldsfélagsins FS38 í júlí 2008 en fjárhæðin var notuð til að fjármagna kaup félagsins á 25,7% hlut Fons í Aurum Holdings.

Frekar Fons en að þynna hluti annarra

Þórólfur fékk umrætt erindi frá deildarstjóra Kaupþings í Dúbaí til afgreiðslu og hafði í kjölfarið samband við Gunnar Sigurðsson, þáverandi forstjóra Baugs. Sá tjáði Þórólfi að þar á bæ væri mögulega áhugi fyrir viðræðum við Damas um kaup á hlutabréfum í Aurum. Kaupþing hélt utan um málið og greindi Þórólfur frá því að forstjóri Damas hitti Gunnar á fundi í London og í framhaldi af þeim fundi ræði menn saman af fullri alvöru. Komið var á fjölmennari fundi í Dúbaí 3. apríl 2008 sem Jón Ásgeir sat meðal annarra.

Frá upphafi var rætt um að Damas myndi kaupa 30% hlut í Aurum og kom sú tillaga frá Damas. Í fyrstu var það hins vegar spurning hvort Damas keypti fyrirliggjandi hluti eða kæmi inn með nýja. „Þeir vildu fá 30% eftir viðskiptin.“

Þórólfur sagði að strax á byrjunarstigum hafi Gunnar nefnt að hugsanlega myndi Fons vilja minnka hlut sinn í Aurum. Þannig væri hægt að komast hjá því að þynna út hlut annarra hluthafa. Fyrstu drög að forsamning voru samin í Kaupþingi og send Damas 21. maí 2008 og skjalið var undirritað í Dúbaí 14. júní sama ár.

Boginn ekki spenntur til hins ítrasta

Í Aurum-málinu er meðal annars tekist á um virði félagsins, vegna þess að sex milljarða lánveitingin frá Glitni var notuð til að fjármagna að fullu 25,7% hlut Fons í félaginu. Þórólfur sagði að frá upphafi hafi verið miðað við að félagið væri 100 milljón punda virði og að sú tala væri frá Baugi komin og það hafi verið lágmarksvirði sem Damas bæri að samþykkja. Kaupþing vann svo verðmat á félaginu og samkvæmt því var verðmætið 121 milljón pund.

Þórólfur sagði að verðmat sem þetta leggi ákveðinn grunn í samningaviðræðum og það sé svo kaupandans að sannreyna það mat með áreiðanleikakönnun. Hann benti á að þóknun Kaupþings fyrir vinnu sína byggist að miklum hluta á að af samningum verði milli aðila og því hafi það verið bankanum í hag að Damas hefði keypt hlutabréf í Aurum. „Við hefðum því ekki lagt til að boginn hefði verið spenntur hærra en til stóð.“

Hann áréttaði eftir spurningar verjenda að fyrsta snerting í málinu hefði verið í janúar 2008, þreifingar hefðu staðið yfir þar til forsamningur var undirritaður 14. júní sama ár og eftir það fór fram áreiðanleikakönnun sem stóð fram í ágúst.

Damas bakkaði út úr samningunum

Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, kom einnig fyrir dóminn í dag og botnaði eiginlega söguna um Damas og Aurum. Hann vísaði til þess að Kaupþing hefði haft milligöngu um að kynna Damas fyrir stærstu hluthöfum Aurum og minntist á fundinn í London. Einnig að það hafi orðið úr að selja hlut Fons til að þynna ekki hlut annarra hluthafa.

Hann sagði að eftir að forsamningurinn var undirritaður hafi verið unnið að bæði kaupsamningi og innkaupasamningi á milli Damas og Aurum. Stóð til að Aurum myndi meðal annars kaupa skartgripalager af Damas.

Gunnar sagði að eigendur Damas hefðu krafist skýringa á því hvers vegna Aurum væri verðmetið eins og gert var. Hann sagði að það hefði verið útskýrt, að stærstu hluthafar væru í raun ekki að leita eftir samstarfsaðilum, það væru mikil tækifæri fólgin í félaginu og að þetta teldist eðlilegt verð. Hafi það enda verið samþykkt.

Þegar áreiðanleikakönnuninni var lokið hófust næstu skref. Þá var komið fram í byrjun september, samningurinn mjög langt kominn og aðeins örfá atriði sem stóðu út af borðinu. Gunnar sagði forsvarsmenn Baugs hafa haldið til Dúbaí þar sem þeir hittu fyrir forstjóra Damas, fjármálastjóra og fleiri fulltrúa félagsins. Hann sagði þann fund eftirminnilegan enda hafi hann verið haldinn 17. september 2008, sama dag og Lehman Brothers féll.

Hann sagði að þegar Baugsmenn gengu af fundinum hafi þeir litið svo á að málið væri frágengið. Til stæði að halda stjórnarfund daginn eftir til að fá viðskiptin endanlega samþykkt. Það gekk hins vegar ekki eftir því stjórn Damas skipaði þriggja manna nefnd til að klára málið. Stóð til að það yrði klárað 8. október 2008.

Gunnar sagði að fljótlega eftir að nefndin var skipuð hafi farið að bera á nýjum kröfum frá Damas, meðal annars kröfum sem ljóst hafi verið í samningaviðræðunum að aldrei kæmi til greina að samþykkja. Hafi það aðallega verið í tengslum við innkaupasamninginn milli félaganna. Hann sagðist hafa skynjað að Damas væri þarna að bakka út úr samningunum. Til stóð að stjórnendur Aurum færu til Dúbaí í lok september en ekki varð af þeirri ferð.

Hann sagðist enga formlega staðfestingu hafa fengið á því að hætt hefði verið við samningaviðræður en heimsmyndin hafi á þessum tíma verið að breytast gríðarlega og hann hafi litið svo á að þeir væru hættir við.

Spurður af verjendum sagði Gunnar alveg ljóst að um raunverulegar viðræður hafi verið að ræða og þeim hafi fylgt mikill kostnaður, ekki síst við áreiðanleikakönnunina sem Damas framkvæmdi. 

Umboðssvik eða viðskipti?

Eftir miklar bollaleggingar innan Glitnis banka framan af árinu 2008 varð úr að lánabeiðni var útbúin í júlí. Í henni var lagt til að Glitnir fjármagnaði að fullu sex milljarða króna kaupverð FS38 á 25,7% hlut Fons í Aurum. Miðað var við að 2,75 milljörðum króna af andvirði kaupverðsins yrði ráðstafað til endurgreiðslu á Stímláni Fons. Þá yrðu 1,25 milljarðar króna settir sem trygging í markaðsviðskiptum Fons hjá Glitni og loks átti að greiða tvo milljarða króna út til Fons, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar. Jón Ásgeir fékk einn milljarð króna af síðastnefndu greiðslunni.

Sérstakur saksóknari heldur því fram að Lárus og Magnús hafi misnotað aðstöðu sína við lánveitinguna og sett með henni bankann í hættu. Lánið hafi verið samþykkt á milli funda vegna augljósrar andstöðu áhættunefndar bankans og til að komast framhjá umfjöllun hjá henni. Jón Ásgeir hafi beitt þrýstingi sínum til að fá lánið afgreitt og Bjarni hafi undirbúið lánið þrátt fyrir að vita að tryggingar væru ekki fullnægjandi.

Eins og komið hefur fram við aðalmeðferðina þá töldu þeir Lárus, Magnús og Bjarni að bankinn hefði verið betur settur eftir viðskiptin. Þau hefðu verið viðskiptalegs eðlis. Jón Ásgeir hafnar svo að hafa beitt óeðlilegum þrýstingi.

Matið innanhúss það hæsta

Sérstakur saksóknari telur að sú ákvörðun bankans að taka tryggingu í Aurum bréfunum hafi verið ófullnægjandi trygging og því hefur nokkuð verið tekist á um það. Eins og greint hefur verið frá á mbl.is greindu verjendur frá því að tvö gögn hefðu komið fram við upphaf aðalmeðferðar. Áður hefur verið greint frá verðmati Kaupþings en einnig var það verðmat sérfræðings Glitnisbanka sem starfaði við fyrirtækjaráðgjöf bankans. Hann vann mat á Aurum í maí 2008 - með sambærilegum hætti og gert var hjá Kaupþingi - en fékk töluvert breytta niðurstöðu.

Taldi hann að ef fallist væri á allar forsendur sem gefnar voru ætti verðmæti Aurum að vera á milli 190 og 200 milljóna sterlingspunda. Þegar verðmætið var tekið niður með tilteknum forsendum fór það niður í 110 milljónir punda. 

Verjendur í málinu telja að þessi tvö verðmöt séu lykilgögn í málinu, enda hreki þau staðhæfingar sérstaks saksóknara um að bréfin í Aurum hafi verið ófullnægjandi trygging fyrir lánveitingunni. Bankinn hefði verið mun betur settur eftir umrædd viðskipti. Stærstur hluti upphæðarinnar hafi verið notaður til að greiða niður ótryggðar skuldir í bankanum og áhættan hafi flutt frá nefndum ótryggðum skuldum Fons og Jóns Ásgeirs við bankann í verðmæta eign í Aurum, eða eftir atvikum söluhagnað af kaupum Damas á hlut FS38.

Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun en verður eftir daginn frestað fram í maí þegar þau erlendu vitni sem gefa eiga skýrslu munu koma fyrir dóminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert