Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælir nú á Alþingi fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Að því loknu fer fyrsta umræða um það fram en búist er við því að umræðurnar standi fram á kvöld.
Bjarni og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu frumvarpið á blaðamannafundi í Iðnó fyrir rúmri viku.
Hámarksfjárhæð niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verður fjórar milljónir króna á heimili, en til frádráttar koma fyrri opinber úrræði til lækkunar höfuðstóls sem lántakandi hefur þegar notið.
Rétt til leiðréttingar skapa verðtryggð húsnæðislán, vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem mynda stofn til vaxtabóta og voru til staðar á tímabilinu 1. janúar 2008 - 31. desember 2009. Leiðrétting er að frumkvæði lántaka og þarf að sækja um hana hjá ríkisskattstjóra á tímabilinu 15. maí til 1. september 2014, að því er segir í frumvarpinu.
Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að Alþingi heimili ráðherra að gera samkomulag við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki um framkvæmd almennrar leiðréttingar þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána einstaklinga sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.