Skýrsla óþekkta embættismannsins

Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar. mbl.is

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður og formaður Heimssýnar, gagnrýnir skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ um ESB-viðræðurnar, segir hálfsannleik koma þar fram og í raun sé þetta „skýrsla óþekkta embættismannsins“ þar sem vitnað sé í nafnlausa embættismenn ESB og tveggja manna tal.

„Það kemur manni í raun mest á óvart að ekkert nýtt kemur þarna fram. Týnd eru til fimm atriði sem eiga að skýra það af hverju frestur kom á vinnuna við aðildarviðræðurnar og þetta er að mínu mati hálfsannleikur. Hvorki makrílveiðar eða Icesave stoppuðu viðræðurnar. Það er viðurkennt í viðauka 1 úr skýrslu Hagfræðistofnunar að ríki ESB leggja ekki í aðlögunarferli við annað ríki nema að engar deilur séu uppi, það var fyrst og fremst það sem stoppaði þetta.“

Vigdís bendir á að í skýrslunni sé talað um að ósamstaða hafa verið í fyrri ríkisstjórn og ekki verið hægt að opna einhverja viðræðukafla vegna fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar.

„Þá spyr ég á móti. Hvernig á þá ríkisstjórn, sem er á móti aðild að Evrópusambandinu, að geta haldið þessari för áfram? Sjávarútvegskaflinn er afar undarlegur, þar er ekki vísað í neinar heimildir að ráði, að öðru leyti en því að það eru óþekktir og andlitslausir embættismenn í Brussel virðist koma þarna inn með heimildir sem skýrsluhöfundar treysta sér ekki til að upplýsa hverjir eru. Þetta er ekki í boði í háskólasamfélaginu að koma fram með svona órökstuddar fullyrðingar í skýrslu af þeim gæðum sem svona skýrsla á að hafa. Það er engin heimildarskrá um það hver segir hvað. Þetta er eiginlega skýrsla óþekkta embættismannsins,“ segir Vigdís og bætir við að vitnað hafi verið í minnisblöð embættismanna sem ekki hafi verið lögð fram sem gögn í aðlögunarferlinu.

„Það er ekki hægt að bjóða okkur uppá það að vitna í tveggja manna tal. Ég hef farið í gegnum háskólanám og veit að allt þarf að vera skothelt varðandi heimildir og rökstutt til að ritgerðir og skýrslur séu teknar gildar af háskólasamfélaginu. Ef að ekki er gefin upp ákveðin heimild fyrir ákveðnum fullyrðingum þá veit maður ekki hvort að þær séu réttar,“ segir Vigdís sem telur ekkert benda til þess í skýrslunni að tilefni sé til að draga tillöguna til baka um að slíta viðræðum við ESB. Í raun sé búið að draga umsóknina til baka með því að hætta viðræðum og slíta samninganefndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert