„Ég fagna því bara að skýrslan sé komin út. Það hafa margir beðið eftir henni,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is vegna skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sem stofnunin vann fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Samtök atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands.
Gunnar segist ekki hafa haft tækifæri til þess að fara djúpt ofan í skýrsluna en hann var á leið utan í opinberum erindagjörðum þegar blaðamaður ræddi við hann. Miðað við það sem hann hefði náð að kynna sér virtist skýrslan staðfesta margt af því sem áður hefði komið fram. Til að mynda um efnahags- og peningamál í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið sem og í skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldmiðlamál sem kom út á síðasta ári. „En þetta er vitanlega sagt með þeim fyrirvara að ég á eftir að fara djúpt ofan í þetta.“
Ráðherrann nefnir að sama skapi til að mynda þá staðreynd að umsóknarferlið hafi verið miklu þyngra en áður og að Icesave-málið og makríldeilan hafi haft áhrif á viðræðurnar sem rími við skýrslu Hagfræðistofnunar. „Þetta virðist staðfesta margt sem áður hefur komið fram sem er bara ágætt.“
Spurður hvort skýrsla Alþjóðamálastofnunar hafi áhrif á stöðu umsóknarinnar segir Gunnar að málið sé einfaldlega í ferli. Þingsályktunartillaga stjórnvalda um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka sé í höndum utanríkismálanefndar Alþingis og hann sjái ekki í fljótu bragði að skýrslan komi með neina vinkla sem séu til þess fallnir að breyta stefnu stjórnvalda.
„En það er ágætt að þetta er komið fram.“