„Skýrslan skiptir miklu máli og sýnir vel hversu alvarlegt það væri og misráðið að slíta viðræðunum,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, um skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar.
„Ég sé ekki betur en að þarna séu sannfærandi rök fyrir því að það yrði óskynsamleg ákvörðun að slíta viðræðunum. Sem innlegg í umræðuna er skýrslan mjög nauðsynleg. Það er í raun merkilegt að menn ætluðu að slíta viðræðunum áður en skýrsla um stöðu viðræðna var mönnum kunn. Þarna er m.a. reynt að rekja ástæðuna fyrir því af hverju t.d. sjávarútvegskaflinn var ekki opnaður og þá aðallega vegna makríldeilunnar,“ segir Guðmundur.
Hann segir skýrsluhöfunda einnig benda á að samningatæknilega séð sé það algengt að fyrst byrji menn á að ræða mál þar sem samhljómur sé ríkjandi og síðan það sem geti verið erfitt viðureignar. Þetta sé hefðbundið ferli og svipað og í kjaraviðræðum. Guðmundur segir það einnig hafa verið rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ að mikill samhljómur sé með ESB í stórum málaflokkum, Ísland sé að innleiða umyrðalaust um tvo þriðju hluta af löggjöf Evrópusambandsins.
„Það er athyglisvert hvernig skýrsluhöfundar greina EES-samninginn sem embættismannasamning sem hefur í för með sér mjög mikinn lýðræðishalla. Einnig er greining í sjávarútvegsmálum þar sem færð eru sterk og gild rök fyrir því að ef við þurfum sérlausnir og sérstakar undanþágur sé vilji til þess innan ESB, líkt og hefur alla tíð verið vitað í umsóknarferlinu. Einnig er athyglisvert að sjá það í sjávarútvegskafla skýrslunnar að jafnvel þótt við fengjum ekki sérlausnir þá myndi samt enginn annar veiða í okkar lögsögu,“ segir Guðmundur og telur að ríkisstjórnin eigi að taka tillit til skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ.
„Núna eru komnar tvær umsvifamiklar greiningar í Evrópumálum sem væri mikið ábyrgðarleysi að taka ekki tillit til. Ég var líka sáttur við skýrslu Hagfræðistofnunar og finnst gott að fá allar þessar greiningar. Mér finnst það algjörlega blasa við að það yrði fullkomið glapræði að slíta viðræðunum. Það er það mikið í húfi,“ segir Guðmundur að endingu.