Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ m.a. leiða skýrt í ljós að minni vinna hafi verið eftir í viðræðunum við ESB en gefið hafi verið í skyn áður í umræðunni. Hún vill að skýrslan verði rædd í utanríkismálanefnd.
„Það er að minnsta kosti ekki hægt að segja að ekkert hafi verið búið að gera í þessum málum,“ segir Katrín en tekur fram að vegna annarra verkefna í dag hafi hún ekki náð að kynna sér skýrslu Alþjóðamálastofnunar í þaula. Hún telur rétt að utanríkismálanefnd Alþingis taki skýrsluna fyrir samhliða öðrum tengdum málum, eins og þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um slit viðræðna, skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ og fleiri gögnum.
Skýrsla Alþjóðamálastofnunar kemur m.a. inn þá þætti sem töfðu viðræðurnar við ESB á sínum tíma, eins og skort á samstöðu innan ríkisstjórnar VG og Samfylkingarinnar. Spurð út í þetta segir Katrín ýmsa þætti hafa valdið töfum.
„Það lá ljóst fyrir frá byrjun að skiptar skoðanir voru meðal stjórnarflokkanna. Það breytti því ekki að við töldum okkur geta unnið að málinu af heilindum útfrá þeim rökum að mestu skipti að þjóðin fengi eitthvað til að kjósa um og taka afstöðu til. Kannski hefur það haft einhver áhrif til að hægja á ferlinu, segir Katrín.
Hún telur skýrsluna í raun ekki breyta miklu um stefnu eða sýn Vinstri grænna í Evrópumálum. „Eftir að utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um slit viðræðna þá höfum við haldið fast í þá skoðun okkar að rétt sé að þjóðin fái að taka þá ákvörðun hvort rétt að slíta viðræðunum eða ekki eða hvort eigi að halda þessu áfram og ljúka þessu. Þessi skýrsla breytir engu um það,“ segir Katrín.