Verja réttinn til að framfleyta sér

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

„Hvers vegna mælti háttsettur þingmaður ekki með því á sínum tíma að við myndum fara í fjöldauppsagnir í opinbera geiranum til þess að verja gengið? Hvers vegna mælti hann ekki fyrir því að við segðum upp nokkrum þúsundum íslenskra opinberra starfsmanna til þess að verja gengið? Vegna þess að hann segir að það sé miklu betra að leggja áherslu á fast gengi heldur en vinnumarkaðinn.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Árni Páll vísaði í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Benti hann á að í skýrslunni kæmi fram að mikill velferðarbati fengist hér á landi við upptöku evrunnar. Bjarni hefði hins vegar lofað sveigjanleika íslensku krónunnar á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Það væri hins vegar meðal annars sá sveigjanleiki sem hefði leitt til gengisfalls og skuldavanda þjóðarinnar.

Bjarni sagði hins vegar að óumflýjanlegt hafi verið að láta gengið lækka til þess að auka samkeppnishæfni Íslands og þannig hafi störf verið varin í opinbera geiranum. „Ég er núna og var um helgina að benda á það að atvinnuleysi á Íslandi var í febrúar lægra en í hverju einasta Evrópusambandsríki. Og ég hef líka vakið athygli á því að þau ríki sem hafa ákveðið að taka þátt í sameiginlegu myntinni en eru með háar ríkisskuldir eiga enga aðra leið til þess að ná endum saman en að segja upp fólki í þúsundatali.“

Sagði hann Íslendinga hafa valið að fara þá leið að verja rétt manna til þess að framfleyta sjálfum sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert