63% eru óánægð með forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Golli

Yfir helmingur landsmanna er óánægður með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar og segjast innan við 30% ánægð með störf flestra ráðherra. Mest óánægja er með störf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Gunnars Braga Sveinssonar, en flestir lýsa ánægju með  Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Eygló Harðardóttur, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Þetta er í fyrsta sinn á kjörtímabilinu sem ánægja með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar er könnuð. Sambærileg mæling var síðast gerð í nóvember til desember 2012, í tíð síðustu ríkisstjórnar.

26% segjast ánægð með ríkisstjórnina

Niðurstöður sýna að fleiri eru óánægðir með störf ríkisstjórnarinnar nú en þá. Alls segjast 51% óánægð með ríkisstjórnina, samanborið við 47% haustið 2012. Aðeins 26% segjast ánægð með störf ríkisstjórnarinnar, en haustið 2012 sögðust 30% ánægð.

Mest óánægja er með störf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra (65% óánægðir) og Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra (63%). Flestir segjast hinsvegar ánægðir með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra (33%) og Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra (32%).

Enginn eins vinsæll og Katrín Jakobsdóttir var

Sé ánægja með störf einstakra ráðherra borin saman við ánægjuna með ráðherra síðustu ríkisstjórnar sést að hlutfallið er nokkuð svipað, utan þess að Katrín Jakobsdóttir tróndi á toppnum með 50% ánægju í síðustu ríkisstjórn og enginn ráðherra núverandi ríkisstjórnar nýtur viðlíka vinsælda.

Um 28% voru ánægð með störf Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, 27% með störf Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra, 26% voru ánægð með störf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, 25% voru ánægð með störf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og 24% með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Um 21% var ánægt með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar sem umhverfis- og auðlindaráðherra og 18% voru ánægð með störf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.

Um 56% voru óánægð með störf Bjarna Benediktssonar, 54% með störf Sigurðar Inga og
52% voru óánægð með störf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Um 48% voru óánægð með störf Illuga Gunnarssonar, 46% með störf Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og 42% með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar en þriðjungur var óánægður með störf Eyglóar Harðardóttur.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á Alþingi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Flestir eru ánægðir með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra.
Flestir eru ánægðir með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert