Lekur bátur í mynni Reyðarfjarðar

TL - Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar.
TL - Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg
<span><span>Sjóflokkar björgunarsveita á Austurlandi voru kallaðir út rétt eftir klukkan þrjú í dag þegar tilkynning barst um lekan bát í mynni Reyðarfjarðar. Um var að ræða lítinn, 7 tonna fiskibát og var einn maður um borð.</span></span>

Kallað var út á fyrsta forgangi þar sem lekinn var töluverður og var báturinn kominn á hliðina nokkrum mínútum eftir að neyðarkallið var sent út. Nærliggjandi bátum var beint á svæðið og einnig fóru björgunarsveitamenn landleiðina út fjörðinn.

Reyðarfjörðurinn er langur og því tekur nokkurn tíma að sigla út hann, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg. Þar sem ástandið var talið alvarlegt var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.

Björgunarbátur frá Björgunarsveitinni Ársól í Reyðarfirði var fyrstur á staðinn, en hann kom að leka bátnum fyrir nokkrum mínútum. Reyndist skipverjinn heill á húfi.

Þegar ljóst var að björgunarsveitir næðu tímanlega á staðinn var þyrlan afturkölluð sem og aðrar bjargir. Björgunarbáturinn Alfreð Guðnason mun fylgja bátnum til hafnar á Reyðarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert