Borgaryfirvöld í Reykjavík þrengja markvisst að einkabílnum í því skyni að efla vistvænar samgöngur, ferðir með almenningsvögnum og hjólreiðar.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Fram kemur að í nýju aðalskipulagi höfuðborgarinnar sé það yfirlýst stefna að breyta umferðarkerfinu og þar með daglegum ferðavenjum borgarbúa.
Stefnunni hafi þegar verið komið í framkvæmd með þrengingu gatna, fækkun bílastæða og með því að hætta við gerð mannvirkja, svo sem mislægra gatnamóta, sem greiða fyrir bílaumferð. Á móti sé staða gangandi og hjólandi umferðar og almenningssamgangna bætt verulega.