„Vitum hvað Evrópusambandið er“

Bjarni Benediktsson og Árni Páll Árnason.
Bjarni Benediktsson og Árni Páll Árnason. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Menn segja að við vitum ekki hvað Evrópusambandið er án viðræðna. Auðvitað vitum við hvað Evrópusambandið er. Það er birt í lögum, það er birt í sáttmálum. Við vitum nákvæmlega hvað Evrópusambandið er,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um skýrslu Alþjóðamálastofnunar um umsókn Íslands um inngöngu í sambandið.

„Getum við fengið minniháttar aðlaganir, tímafresti og svo framvegis? Eflaust. En það er ekkert í þessari skýrslu sem við erum að ræða hér í dag sem segir að við munum fá varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni,“ sagði Bjarni ennfremur og vísaði í því sambandi í skrif Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands, þess efnis að engin þjóð hafi fengið varanlegar undanþágur frá löggjöf Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar.

Hins vegar hefði Evrópusambandið breytt löggjöf sinni til þess að koma til móts við þarfir einstakra ríkja eins og til að mynda Möltu. En þeirri löggjöf gæti Evrópusambandið breytt. Noregur væri annað dæmi um ríki sem farið hefði fram á fjölmargar varanlegar undanþágur en enga fengið.

Málshefjandi umræðunnar var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Spurði hann meðal annars að því hver hættan væri í því að leggja málið í dóm þjóðarinnar á grundvelli þeirra upplýsinga sem lægju fyrir. Gagnrýndi hann Bjarna fyrir að tala fyrir aga í fjármálum þjóðarinnar á sama tíma og ríkisstjórnin hefði lagt fram frumvörp sín í málum skuldugra heimila sem væru að hans mati ábyrgðarlaus. Bjarni gengi ekki fram með góðu fordæmi í þeim efnum.

Þá kallaði Árni Páll eftir þverpólitískri samstöðu um afnám gjaldeyrishafta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert