Bæjarstjórn Kópavogs hafnaði á fundi sínum í gærkvöldi tillögu Ómars Stefánssonar, Framsóknarflokki, um að bjóða Gísla Marteini Baldurssyni og fjölskyldu í helgarferð til Kópavogs.
Tillaga Ómars var svohljóðandi:
„Bæjarráð felur bæjarstjóra að bjóða Gísla Marteini og fjölskyldu í helgarferð til Kópavogs og kynna fyrir honum unaðsreiti Kópavogs og staði sem gætu haft aðdráttarafl fyrir ferðamenn úr 101 og öðrum heimsborgum.“
Tillagan hafði áður verið samþykkt í bæjarráði og vísað til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn hafnaði hins vegar tillögunni með fimm atkvæðum en þrír greiddu atkvæði með henni. Tveir bæjarfulltrúar greiddu ekki atkvæði.
Gísli Marteinn, umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Sunnudagsmorgunn, sagði á ferðamálaráðstefnu Landsbankans nýverið að utan miðborgar Reykjavíkur væri fátt að gera fyrir ferðamenn. „Ég bið til guðs að einhver túristi lendi ekki í því að vera á einhverju glötuðu hóteli í Kópavogi, fyrirgefið þið. Vegna þess að hann verður bara brenndur af því. Það er ekki gaman þar,“ sagði Gísli m.a., að því er fram kemur á vef Landsbankans.
Hér má sjá upptöku af ræðu Gísla á ráðstefnunni.