„Við þurfum ekki að fara á límingunum þótt það komi ekki sending frá Noregi, hér eru mun fallegri tré en þau sem hafa verið að koma undanfarin ár,“ segir Brynjólfur Jónsson, skógfræðingur og framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Staðan í íslenskri skógrækt sé allt önnur nú en fyrir 63 árum þegar hefðin hófst og það er m.a. Norðmönnum að þakka.
Stóra jólatrésmálið olli talsverðum titringi í gær eftir að borgarstjóri Ósló greindi frá því að líklega fái Íslendingar ekki fleiri jólatré að gjöf. Sögunni fylgir að áfram verði haldið að senda jólatré til London, til að viðhalda mikilvægum vinskap við Breta.
Óslóarbúar hafa sent London jólatré frá 1946 sem þakklætisvott fyrir hjálp þeirra og stuðning í Seinna stríði. Reykjavík fékk sitt fyrsta Óslóartré 6 árum síðar, 1952, sem vinargjöf m.a. í ljósi þess hversu berangurslegt Ísland var og fátækt af greniskógi. Ári áður, jólin 1951, var þó notað íslenskt tré, 6 metra hátt rauðgreni frá Hallormsstað.
Viðbrögð netverja létu ekki á sér standa í gær. Sumir brugðust reiðir við og brigsluðu Norðmönnum um svik við frændur sína. Á Twitter varð jólatréð spéfuglum yrkisefni.
Ég vil fá botn í þetta Oslóartrésmál ASAP. Afhverju eru norðmenn byrjaðir að hata okkur af svona innilega?
— Guðmundur K. Jónsson (@gudmkri) April 8, 2014
Getum við ekki þá bara fengið peninginn?? - Íslendingar fá ekki fleiri jólatré - mbl.is http://t.co/97al9X0SLr via @mblfrettir
— Geiri Sæm (@geiri_saem) April 8, 2014
Legg til að Íslendingar loki algjörlega á Djúpu útflutning til Noregs #nammisveltumNorðmenn #havemcomecrawlingback
— CorvusCorax (@Natthrafninn) April 8, 2014
Borgarráð Óslóar bendir m.a. á að Íslendingar hafi nú í áratugi stundað skógrækt og eigi orðið sjálfir nógu stór grenitré til að nýta sem jólaskraut. Brynjólfur tekur undir þetta og bendir á að Reykjavík gæti þess vegna nýtt sér tré úr eigin borgarlandi í Heiðmörk, eða nágrannasveitarfélögum á Suðurlandi.
„Þetta er bara ágætur tímapunktur að mörgu leyti. Hér á suðvesturhorninu er fullt af skógum þar sem vaxa yfir 10-15 metra há tré. Við erum alltaf að huga að framtíðinni og ef það er ekki gengið of hart að þessu þá er þetta endurnýjanleg auðlind og sjálfbær.“
Þess má geta að á aðventunni í fyrra gaf Reykjavíkurborg einmitt íbúum Þórshafnar í Færeyjum sitkagrenitré sem höggvið var í Heiðmörk. Þetta var í fyrsta sinn sem Reykjavík sendir Þórshöfn tré, en með því vildi Jón Gnarr borgarstjóri þakka frændsemi og vináttu Færeyinga. Tréð var gróðursett árið 1960 og orðið 12 m hátt.
Að sögn Brynjólfs koma a.m.k. þrjár grenitegundir til greina þar sem af nógu er að taka, það er sitkagreni og blágreni auk rauðgrenis. Óslóartréð hefur jafnan verið rauðgreni, og þannig vill líka til að flest rauðgreni sem hér vex er norskt að uppruna.
„Við höfum verið að sækja rauðgrenifræ til Noregs alveg fram á þennan dag, þannig að ef menn vilja halda einhverri tengingu þá væri kannski rétt að fara þá leið,“ segir Brynjólfur.
„Við eigum bara að þakka fyrir það sem liðið er í þessu. Tímarnir breytast, við erum orðin sjálfbær og þar hafa Norðmenn komið mjög við sögu í gegnum árin með því að leggja okkur lið. Þeir gáfu okkur heila rannsóknarstöð í skógrækt á Mógilsá og ýmislegt fleira. Þannig að Norðmenn hafa átt mikinn þátt í því hvernig skógrækt hefur þróast hér gegnum tíðina og ekki viljum við sýna neitt vanþakklæti í því sambandi.“
Sjá fyrri frétt mbl.is: Íslendingar fá ekki fleiri jólatré
Osló ætlar að hætta að gefa Reykjavík jólatré. Stuðlarnir á borgum sem eru til í að taka við: Moskva 1,40 Peking 1,60 Kaupmannahöfn 11,4
— Atli Fannar (@atlifannar) April 8, 2014
@atlifannar íslenskir iðnaðarmenn flykkast til Noregs, 5 árum síðar makrílbackstab og fokkjújól.. tilviljun?
— Henrý (@henrythor) April 8, 2014
Legg til að Kópavogur taki sig til og gefi Reykjavík jólatré þetta árið - Hvernig líst þér á það @OmarStef ?
— Þórarinn Hjálmarsson (@thorarinnh) April 8, 2014
Eigum enga vinir lengur. Enga. http://t.co/D7atgFX004 via @RUVfrettir
— Freyr Eyjólfsson (@FreyrEyjolfsson) April 8, 2014