„Þessi hugmynd kviknaði upp frá umræðum á facebook um úreltar kynjamyndir,“ segir Elín Inga Bragadóttir, en ásamt Margréti Helgu Erlingsdóttir stofnaði hún facebook-hópinn „kynlegar athugasemdir“ þar sem fólk getur sett inn sögur af því þegar það upplifir úreltar kynjamyndir í daglegu lífi. Hópurinn var stofnaður í gær en hefur vaxið gríðarlega og er nú kominn með nær 1500 meðlimi. Sögurnar sem fólk hefur að segja eru fjölbreyttar, en margar þeirra til dæmis að verkaskiptingu kynjanna á vinnustöðum.
„Mér hefur lengi verið kynjajafnrétti mjög hugleikið, og við Margrét fórum til dæmis af stað með verkefnið Barningur síðasta sumar. Við vorum svo að ræða saman vinkonurnar í vikunni og það virtust allar stelpurnar eiga einhverja sögu þar sem þær höfðu upplifað úreltar og jafnvel svæsnar kynjamyndir. Ég setti inn stöðuuppfærslu um þetta á facebook og einhver þar stakk upp á því að það yrði haldið einhvers konar bókhald utan um þetta. Þá stofnuðum við hópinn,“ segir Elín.
Hún segir hópinn sýna það svart á hvítu að það er enn langt í land með að útrýma úreltum kynjamyndum. „Það eru margir hafa lent í svæsnum atvikum og svo eru líka strákar sem hafa upplifað svona sögur. Fólk segir oft hluti sem gera mann alveg brjálaðan, oft af hugsunarleysi því þetta er svo innrætt í menninguna okkar. Þessi hópur sýnir að okkur sé ekki sama um þetta,“ segir Elín og bætir við að það séu sumir sem halda því fram að svona sögur séu bara væl og að það sé í lagi að segja einn og einn brandara. „Þessi hópur sýnir að þetta er ekki bara einn og einn brandari.“