Embætti umboðsmanns sjúklinga verði stofnað

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.
Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.

Í dag fóru Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS og Ellen Calmon, formaður ÖBÍ á fund Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra. Kynntu þau ráðherra brýna þörf fyrir stofnun embættis umboðsmanns sjúklinga til að mæta þörf almennings fyrir upplýsingamiðlun. Vöktu þau athygli á að almenningur standi oft ráðþrota gagnvart flóknum úrræðum kerfisins.

Aðgangur að upplýsingum, ráðgjöf og stuðningi til að fylgja erindum sínum eftir sé erfiður. Flókið geti verið fyrir sjúklinga, fatlaða, aðra notendur heilbrigðiskerfisins og aðstandendur þeirra að greina hvaða stofnun veiti viðkomandi þjónustu.

Margvíslegt óhagræði geti skapast innan opinberu stofnanna sem hafi í för með sér hættu á að úrlausn sambærilegra erinda séu leyst með ólíkum hætti innan stofnananna, segir í tilkynningu.

Til að leysa úr þessum vanda leggi hagsmunasamtökin til að stofnað verði embætti umboðsmanns sjúklinga, sem hefur það hlutverk:

  • Að veita almenningi upplýsingar og ráðgjöf um ólík úrræði innan heilbrigðis- og tryggingakerfisins.
  • Að taka við ábendingum almennings um þjónustu heilbrigðis- og tryggingakerfisins og koma umkvörtunum eða kærumálum í viðeigandi farveg.
  • Að krefja stofnanir hins opinbera um svör eða gögn með tilteknum fresti, líkt og Umboðsmaður Alþingis getur gert í dag.
  • Að veita ráðgefandi álit í málsmeðferð stofnana ásamt því að koma á framfæri við stofnanirnar tillögum að vinnureglum til að tryggja samhæfð viðbrögð, draga úr óvissu og spara tíma.
  • Að hafa frumkvæði að því að semja umsagnir um þingmál og stuðla að samvinnu aðila í því skyni að koma á umbótum fyrir sjúklinga ásamt því að rækta tengsl við sambærileg embætti erlendis.

Geðhjálp, SÍBS og ÖBÍ skora á heilbrigðisráðherra að leggjast á árarnar með þeim í því skyni að koma embætti Umboðsmanns sjúklinga á fót eins fljótt og kostur er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert